Eftirsóttur og leist best á Gróttu

við undirritun samningsins í dag.
við undirritun samningsins í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ágúst Gylfason nýráðinn þjálfari karlaliðs Gróttu í knattspyrnu var eftirsóttur eftir að síðasta tímabili lauk en sjö eða átta félög höfðu samband við hann eftir að hann lét af störfum hjá Breiðabliki.  

„Áhuginn sem forráðamenn Gróttu sýndi mér hafði mikið að segja. Ég fann að þeir vildu fá mig og seldu mér þá hugmynd að koma hingað. Hugmyndafræði félagsins snýst um að byggja liðið á ungum og efnilegum drengjum og það er einnig skemmtilegt. Hentar það okkur Guðmundi Steinarssyni, sem verður mér við hlið, gríðarlega vel. Fyrir okkur er gott að vinna með áhugasömum og vinnusömum strákum sem eru tilbúnir að leggja sig 100% fram. En það er nokkuð ljóst að verkefnið verður mikil áskorun. Við ákváðum að kýla á þetta og taka þátt í þeirri vegferð sem félagið er í,“ sagði Ágúst þegar mbl.is ræddi við hann í dag. 

„Á heildina litið voru sjö eða átta lið sem höfðu samband að tímabilinu loknu. Á mismunandi hátt. Um helmingur þeirra fóru í formlegar viðræður við mig. Á endanum leist mér best á verkefnið hjá Gróttu.“

Ágúst gerði þriggja ára samning við Gróttu og fram kom hjá Birgi Tjörva Péturssyni, formanni knattspyrnudeildar Gróttu, á blaðamannafundi í dag að ekki sé tjaldað til einnar nætur með ráðningunni á Ágústi og Guðmundi. 

Grótta hefur unnið sig upp um tvær deildir síðustu tvö sumur og við blasir að leika í efstu deild í knattspyrnu í fyrsta skipti í sögu félagsins. Hvernig metur Ágúst stöðu liðsins á þessum tímapunkti? 

„Með því að komast upp um deildir myndast ákveðin sigurhefð í leikmannahópnum sem við ætlum að taka með okkur upp í úrvalsdeildina. Það er hugarfar sem þú kaupir ekki út í búð. Leikmannahópurinn er skipaður ungum mönnum en þeir eru metnaðarfullir og vilja sýna sig á meðal þeirra bestu. Slíkt hugarfar er gott að hafa en um leið þarf að æfa vel og spila góðan fótbolta. Við munum einnig reyna að nýta okkar reynslu varðandi umgjörð og þess háttar til að hjálpa félaginu að eflast.“

Ber alls engan kala til Breiðabliks

Ágúst stýrði Breiðabliki síðustu tvö keppnistímabil. Í Kópavoginum var tekin sú ákvörðun um að finna nýjan þjálfara fyrir karlalið félagsins og Ágúst viðurkennir að það hafi komið flatt upp á sig. 

„Já það gerði það en ég held einnig að það hafi komið flatt upp á flesta Blika. Ég dreg þá ályktun út frá skilaboðum sem ég hef fengið og eftir að hafa átt samtöl við fjölmarga Blika. Það var óvænt frá mínum bæjardyrum séð en það var uppsagnarákvæði í samningnum sem þeir nýttu sér. Ég verð bara að virða það. Ég ber alls engan kala til félagsins. Breiðablik er flott félag og framtíðin er björt í Kópavoginum,“ sagði Ágúst en Breiðablik hafnaði í 2. sæti Íslandsmótsins síðustu tvö tímabil. 

„Við urðum í 2. sæti á Íslandsmótinu í bæði skiptin og urðum í 2. sæti í bikarkeppninni annað árið og fórum í undanúrslit í bikarnum seinna árið. Við Guðmundur Steinarsson göngum sáttir frá borði hvað árangurinn varðar. Við teljum okkur hafa gert það sem fyrir okkur var lagt sem var að ná stöðugleika. Árin tvö þar áður hafnaði liðið í 6. sæti og við náðum alla vega að koma liðinu í Evrópukeppni tvö ár í röð. Við erum auðvitað sáttir við þann árangur,“ sagði Ágúst Gylfason í samtali við mbl.is á Seltjarnarnesi í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert