Bara gaman að liggja til baka

Berglind Björg Þorvalsdóttir í leik gegn Spörtu Prague í 32-liða …
Berglind Björg Þorvalsdóttir í leik gegn Spörtu Prague í 32-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í september. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum búnar að bíða lengi eftir þessum leik og þetta leggst mjög vel í okkur,“ sagði Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji knattspyrnuliðs Breiðabliks, í samtali við mbl.is á blaðamannfundi liðsins á Kópavogsvelli í dag.

Breiðablik tekur á móti franska stórliðinu PSG í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Kópavogsvelli á morgun. PSG er eitt sterkasta kvennalið heims en liðið er sem stendur í öðru sæti frönsku 1. deildarinnar með 15 stig, jafn mörg stig og Evrópumeistarar Lyon.

„Ég held það sé óhætt að segja að þetta sé einn stærsti leikur sem maður hefur spilað á ferlinum. Það er ekki á hverjum degi sem maður fær tækifæri til þess að spila við PSG og þetta er fyrst og fremst geggjað. Þetta er eitt stærsta lið heims í dag, kvennamegin, og ég er fyrst og fremst spennt að fá tækifæri til þess að kljást við þær á morgun.“

Anita Asante og Berglind Björg takast á á Kópavogsvelli í …
Anita Asante og Berglind Björg takast á á Kópavogsvelli í leik Breiðabliks og Rosengård árið 2016. mbl.is/Golli

Spennandi að mæta nýju liði

Blikar eru vanir því að stjórna leikjum sínum hér heima en á morgun gæti liðið þurft að liggja til baka og leyfa Frökkunum að vera með boltann.

„Þú færð ekki oft tækifæri til þess að mæta liði sem þú hefur ekki spilað gegn áður á Íslandi. Ég tel möguleika okkar bara nokkuð góða. Við munum mæta mjög vel undirbúnar til leiks og við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að vinna leikinn og við mætum klárar til leiks. Við þurfum að vera þéttar til baka og reyna að sækja hratt sem hentar okkur ágætlega. Við erum góðar í því og það verður bara gaman að vera í nýju hlutverki á morgun og liggja aðeins til baka.“

Breiðablik mætti sænska úrvalsdeildarliðinu Rosengård í 32-liða úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2016 og var Berglind í byrjunarliði Blika í leiknum hér heima sem tapaðist 1:0. Bæði Martha og Like Martens, sem eru á meðal bestu knattspyrnukvenna heims, voru í byrjunarliði Rosengård á Kópavogsvelli.

„Það voru ekki margar í liðinu núna sem spiluðu þann leik en það var fyrst og fremst frábær reynsla fyrir okkur. Þrátt fyrir að við séum með ungt lið er mikil reynsla í þessum hóp. Við erum vanar að spila stóra leiki og PSG er risa stórt félag með frábæra leikmenn, þannig að við verðum ekki í miklum vandræðum að gíra okkur upp fyrir leikinn,“ sagði Berglind Björg í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert