Selfoss bikarmeistari í fyrsta skipti

Selfoss er bikarmeistari í fyrsta sinn.
Selfoss er bikarmeistari í fyrsta sinn. mbl.is/Árni Sæberg

Selfoss er bikarmeistari kvenna í fótbolta í fyrsta skipti í sögunni eftir 2:1-sigur á KR í framlengdum úrslitaleik Mjólkurbikarsins á Laugardalsvelli í dag. 

KR byrjaði betur og eftir nokkra pressu skoraði Gloria Douglas glæsilegt mark á 18. mínútu. Hún lék þá á nokkra varnarmenn áður en hún skilaði boltanum í bláhornið fjær með hnitmiðuðu skoti. 

Selfoss hresstist við markið og Hólmfríður Magnúsdóttir var allt í öllu hjá liðinu. Það var því við hæfi að hún jafnaði með glæsilegu marki á 36. mínútu. Hólmfríður vann þá boltann á vinstri kantinum og lék á nánast alla vörn KR áður en hún skoraði sláin inn. 

Selfoss var nálægt því að komast yfir skömmu síðar er Barbára Sól Gísladóttir slapp ein í gegn en Ingibjörg Valgeirsdóttir í marki KR gerði vel í að verja frá henni og var staðan í hálfleik 1:1. 

Selfyssingar héldu áfram að vera betri í byrjun seinni hálfleiks og skaut Magdalena Anna Reimus yfir úr fínu færi snemma í hálfleiknum. Eftir því sem leið á hálfleikinn náði KR hinsvegar betri tökum á leiknum. 

Undir lokin fengu bæði lið góð tækifæri til að skora sigurmark. Hólmfríður Magnúsdóttir slapp í gegn hjá KR en Ingibjörg varði frá henni. Hinum megin skaut Guðmunda Brynja hárfínt framhjá markinu á lokamínútunni.

Í uppbótartíma átti varamaðurinn Sandra Dögg Bjarnadóttir að fá víti fyrir KR eftir að Anna María Friðgeirsdóttir felldi hana innan teigs. Egill Arnar Sigurþórsson, dómari leiksins, dæmdi hins vegar ekki neitt og flautaði hann til leiksloka skömmu síðar og því varð að framlengja. 

Varamaðurinn Þóra Jónsdóttir skoraði sitt fyrsta mark á ferlinum er hún kom Selfossi yfir á 102. mínútu. Hún fékk boltann rétt utan teigs og negldi boltanum í hornið. Ingibjörg var lögð af stað í annað hornið, þegar boltinn fór óvænt framhjá henni í hitt hornið. 

Guðmunda Brynja fékk algjört dauðafæri til að jafna metin strax í upphafi seinni hálfleiks en hún náði ekki að koma boltanum framhjá Kelsey Wys í markinu. Það reyndist síðasta góða færi leiksins og stuðningsmenn Selfoss fögnuðu vel og innilega í leikslok. 

Guðmunda Brynja Óladóttir reynir fyrirgjöf í leiknum í dag.
Guðmunda Brynja Óladóttir reynir fyrirgjöf í leiknum í dag. mbl.is/Árni Sæberg
KR 1:2 Selfoss opna loka
120. mín. Færi! Ingibjörg bombar boltanum fram hann endar á Guðmundu sem tekur hann á kassann en missir hann svo aðeins of langt frá sér og Wys nær til hans. Þarna var Guðmunda í virkilega góðu færi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert