Frábært að þessi tvö lið spili bikarúrslitaleik

Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með Selfossi.
Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með Selfossi. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Það er stór stund á Laugardalsvelli í dag þar sem KR og Selfoss leiða saman hesta sína, en klukkan 17 verður flautað til leiks í bikarúrslitaleik kvenna í knattspyrnu í 39. sinn. KR freistar þess að vinna fimmta titil sinn í sögunni og þann fyrsta í ellefu ár en Selfyssingar gera þriðju tilraun sína að fyrsta titlinum.

Það er sérstök stund að spila bikarúrslitaleik en búast má við að stundin verði enn einstakari fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur. Rangæingurinn er goðsögn hjá KR og vann þrjá bikarúrslitaleiki með liðinu, 2002, 2007 og 2008, en verður nú í búningi Selfoss og miðlar reynslu sinni til leikmanna sem aldrei hafa lyft bikarnum.

Hólmfríður Magnúsdóttir var lengi í KR.
Hólmfríður Magnúsdóttir var lengi í KR. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Þetta gerist ekki stærra en þetta hér á Íslandi. Ég er alveg búin að segja nokkur orð við stelpurnar, en þetta snýst aðallega um að njóta. Ég var 15 að verða 16 ára þegar ég var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu í bikarúrslitaleik árið 2000. Það fór í reynslubankann hjá mér og vonandi gerist það sama hjá ungu leikmönnunum í okkar liði. Þetta eru leikirnir sem maður vinnur fyrir allt undirbúningstímabilið. Nú er bara að hafa gaman, njóta og nýta orkuna frá áhorfendum á jákvæðan hátt,“ sagði Hólmfríður við Morgunblaðið í gær, þá nýkomin af síðustu æfingu liðsins fyrir úrslitaleikinn.

KR-taugar gleymast í leiknum

Selfoss komst í úrslitaleikinn árin 2014 og 2015 en tapaði í bæði skiptin fyrir Stjörnunni. Á þeim árum var Hólmfríður í atvinnumennsku og spilaði til að mynda bikarúrslitaleikinn í Noregi með Avaldsnes árið 2015, og einnig 2013. Með henni í liði þar var meðal annars Þórunn Helga Jónsdóttir, sem nú er fyrirliði KR. Og taugarnar til KR eru skiljanlega sterkar hjá Hólmfríði, þar sem hún lék yfir 100 leiki í efstu deild.

„Það vita það allir að ef ég ætti heima í Reykjavík væri ég bara í einu liði og það er KR. Ég var lengi í KR og það hefur hjálpað mér mikið, innan sem utan vallar, og ég ber tilfinningar til félagsins. En þegar flautað er til leiks gleymist það á meðan leikurinn stendur yfir,“ sagði Hólmfríður, en þetta verður þó ekki í fyrsta sinn sem hún mætir KR í bikarúrslitum, því hún var í liði Vals sem vann úrslitaleik liðanna 2011.

Hólmfríður varð bikarmeistari með Val eftir sigur á KR.
Hólmfríður varð bikarmeistari með Val eftir sigur á KR. Ljósmynd/Sigurgeir Sigurðsson

„Það verður bara gaman að mæta þeim og það er bara frábært að þessi tvö lið séu að spila þennan úrslitaleik. Það sýnir að það þarf virkilega að vinna fyrir því að komast alla leið, það er ekkert gefins í bikarleikjum.“

Suðurlandið er með Selfossi og KR-ingar gáfu út nýtt lag

Stuðningsmenn beggja liða munu hittast fyrir leik. Vesturbæingar ætla að hittast í Laugardalnum einum og hálfum tíma fyrir leik og hrista sig saman. Þá gaf KR-liðið meðal annars út nýtt lag og tónlistarmyndband fyrir leikinn. Selfyssingar ætla að hittast fyrir austan fjall eftir hádegi og koma svo með rútum í bæinn. 

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem gefið var út í morgun. Mbl.is verður á Laugardalsvelli í dag og mun gera leiknum góð skil. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert