Vonandi óhætt að leggja skóna á hilluna

Rut Kristjánsdóttir gekk til liðs við uppeldisfélag sitt Fylki frá …
Rut Kristjánsdóttir gekk til liðs við uppeldisfélag sitt Fylki frá ÍBV í sumarglugganum. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta var fimmti sigurinn í röð þannig að það er mikil gleði í Árbænum,“ sagði Rut Kristjánsdóttir, leikmaður Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur liðsins gegn HK/Víkingi í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Víkingsvelli í Fossvogi í 14. umferð deildarinnar í kvöld.

„Ég kem inn í þetta þegar að þær voru búnar að vinna þrjá leiki í röð. Þær auðvitað misstu nokkra leikmenn í háskólanám til Bandaríkjanna og í meiðsli. Ég kem í raun bara inn í þetta með smá ró inn á miðjuna og öskra þær aðeins áfram og það hefur aðeins verið mitt hlutverk síðan ég kom aftur. Þetta var leikur upp á líf og dauða hjá HK/Víkingi og mér fannst þær berjast eins og ljón allan leikinn. Mér fannst þær að sama skapi ekki skapa sér mikið og við vörðumst þeim vel. Mér leið mjög vel allan tímann og eftir að við skorum fyrsta markið þá fór aðeins vindurinn úr þeim.“

Fylkiskonur eru svo gott sem öruggar með sæti sitt í efstu deild en þær voru nýliðar í deildinni í sumar.

„Framtíðin er björt í Árbænum ef félagið getur haldið í þennan hóp. Það er búið að byggja góðan grunn og þetta lið er allt of gott fyrir 1. deildina. Ef þær halda áfram á sömu braut þá er liðið til alls líklegt en að sama skapi er líka mikilvægt fyrir þessar ungu stelpur að hafa einhverja reynslubolta í kringum sig.“

Rut snéri aftur til uppeldisfélagsins frá ÍBV í félagaskiptaglugganum í sumar en hún er að öllum líkindum að spila sitt síðasta tímabil í efstu deild.

„Fylkir er öruggt með sæti sitt í deildinni þannig að ég þarf að ræða það við Kjartan Stefánsson núna(þjálfara liðsins) hvort mér sé óhætt að hætta þessu núna,“ sagði Rut í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert