Stjarnan meistari eftir sigur í vítakeppni

Stjarnan er meistari meistaranna eftir sigur á Val á Origo-vellinum á Hlíðarenda í Meistarakeppni karla í fótbolta í kvöld. Staðan var markalaus eftir venjulegan leiktíma og réðust úrslitin því í vítakeppni, þar sem Stjarnan var sterkari og vann 6:5.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð rólegur fram að síðustu mínútu er landsliðsmarkmaðurinn Hannes Þór Halldórsson fékk beint rautt spjald fyrir brot á Þorsteini Má Ragnarssyni. Hannes verður ekki með Val í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar vegna brottrekstrarins. 

Stjörnumenn reyndu að brjóta tíu Valsmenn á bak aftur í seinni hálfleik, en það gekk illa að skapa sér alvöru færi gegn Íslandsmeisturunum. Ekkert var skorað og í Meistarakeppninni er engin framlenging og var því farið beint í vítakeppni. 

Bæði lið skoruðu úr fimm fyrstu spyrnum sínum og Jóhann Laxdal úr sjötta víti Stjörnumanna. Haraldur Björnsson varði hins vegar sjöttu spyrnu Vals frá Orra Sigurði Ómarssyni og tryggði Stjörnumönnum sigurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert