Afturelding og Þróttur fóru áfram

Ragnar Már Lárusson skoraði tvívegis fyrir Aftureldingu gegn Selfossi í …
Ragnar Már Lárusson skoraði tvívegis fyrir Aftureldingu gegn Selfossi í dag. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Afturelding og Þróttur úr Reykjavík eru komin áfram í 3. umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu eftir góða sigra í dag. Ragnar Már Lárusson reyndist Aftureldingu drjúgur gegn Selfossi í Mosfellsbænum en hann skoraði tvívegis í leiknum.

Hrvoje Tokic kom Selfyssingum yfir á 21. mínútu með marki úr vítaspyrnu en Ragnar Már jafnaði metin fyrir Mosfellinga á 30. mínútu og staðan 1:1 í hálfleik. Ragnar Már var svo aftur á ferðinni í upphafi seinni hálfleiks áður en Valdimar Jóhannsson jafnaði metin fyrir Selfyssinga á 72. mínútu. Það var svo Hlynur Magnússon sem skoraði sigurmark leiksins og skaut Aftureldingu áfram í 32-liða úrslitin.

Þróttur lenti í litlum vandræðum með Reyni frá Sandgerði en liðið vann 2:0-sigur á Eimskipsvellinum í Laugardal. Jasper Van Der Heyden kom Þrótturum yfir strax á 19. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Gústav Karl Óskarsson innsiglaði sigur Þróttara með marki í uppbótartíma og Þróttarar fara því áfram í næstu umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert