Heimir byrjar á besta liðinu

Heimir Hallgrímsson byrjar ferilinn sem þjálfari knattspyrnuliðsins Al Arabi í Katar á því að mæta besta liði landsins, Al Duhail, í deildabikarnum föstudaginn 21. desember.

Þar er ekki beint ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur því Al Duhail tapaði síðast deildaleik í Katar í febrúar árið 2017 og er ósigrað í 41 leik í röð í deildinni. Þá tapaði liðið síðast fyrir öðrum innlendum andstæðingi í bikarleik í október 2017.

Al Arabi hefur gengið illa í deildabikarnum og er án stiga eftir þrjár umferðir í sínum riðli. Tveimur umferðum er ólokið og liðið þarf að vinna báða leikina til að eiga einhverja möguleika á að komast í átta liða úrslit keppninnar, sem verða leikin í janúar.

Leiknar hafa verið 15 umferðir af 22 í „Stjörnudeildinni“, efstu deildinni í Katar. Hlé er á henni fram í miðjan janúar en tveir síðustu leikir deildabikarsins á dagskrá á meðan.

Á fréttamannafundi í Doha í gær fór forseti Al Arabi yfir þau markmið félagsins að koma því aftur í baráttu um verðlaun á næstu þremur árum. Heimir væri ráðinn til hálfs annars árs, til vorsins 2020, með möguleika á framlengingu eftir það.

Núna er Al Arabi í sjötta sæti af tólf liðum í deildinni, sjö stigum frá þriðja sætinu sem gefur keppnisrétt í undankeppni Meistaradeildar Asíu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert