„Nú fer ég bara að gráta“

Donni fagnar því af mikilli innlifun að Þór/KA sé komið …
Donni fagnar því af mikilli innlifun að Þór/KA sé komið áfram í Meistaradeild Evrópu.

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari kvennaliðs Þórs/KA, var í viðtali við mbl.is þegar það fékkst loks staðfest á síðu uefa.com að lið hans færi áfram. 

Donni, nú er það loks staðfest á heimasíðu UEFA að þið eruð komin áfram.

„Ha, úff maður. Nú fer ég bara að gráta.“ Svo tóku við innileg faðmlög í allar áttir áður en viðtalið hélt áfram.

„Þetta var algjörlega verðskuldað. Við fáum ekki á okkur mark og töpum ekki leik. Við gerðum mjög vel í þessum riðli. Stelpurnar eru búnar að vera frábærar allan tímann. Þær áttu það svoleiðis 100% skilið að fara áfram upp úr þessum riðli og gaman að Ajax hafi líka komist áfram. Liðin hafa verið saman á hóteli út í sveit í heila viku. Vonandi mætum við þeim bara aftur. Ef eitthvað er þá erum við betri og það sýndum við á löngum köflum í dag.“

Lokakaflinn í leiknum var ansi skrautlegur. Þið misstuð Ariönu út af með rautt spjald og Hollendingarnir voru með alls kyns klækjabrögð til að reyna að fiska spjöld.

„Fjandinn hafi það. Þetta var bara þannig leikur og hart tekist á. Mér fannst hún ekki eiga að fá seinna gula spjaldið en þær hollensku komust upp með að leggjast emjandi niður eftir klafs. Við vorum bara betri en Ajax eftir að við urðum tíu.“

Þið voruð greinilega ekkert að fylgjast með í hinum leikjunum og vissuð ekki að jafntefli væri að fara að koma ykkur áfram. Þið tókuð varnarmann af velli og settuð einn sóknarþenkjandi í staðinn. Stuðningsmenn Þórs/KA, sem sátu alveg niðri við völlinn, voru að koma skilaboðum til leikmanna um að hægja á leiknum og taka jafnteflið.

„Við vorum ekkert að fylgjast með og ætluðum að fara inn í leikinn til að vinna hann. Það var svo bara þannig í lokin að við fækkuðum í vörninni og ætluðum að sækja sigur. Það tókst ekki en markmiðið náðist engu að síður, að komast áfram,“ sagði Donni að lokum og kreisti svo allt loft úr blaðamanni með stóru og góðu faðmlagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert