„Höfum oftast spilað betur“

Johanna Henriksson í marki Þórs/KA mætir hér Öglu Maríu Albertsdóttur …
Johanna Henriksson í marki Þórs/KA mætir hér Öglu Maríu Albertsdóttur á Þórsvelli í dag. Thorir O. Tryggvason.,Þórir Tryggvason

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks í Pepsi-deild kvenna, kom í stutt viðtal eftir að lið hans hafði tapað 0:2 fyrir Þór/KA á Akureyri í dag.

Jæja Steini. Þetta er alveg nýtt fyrir ykkur Blika. Þið voruð búin að vinna tólf deildarleiki í röð og skora mikið í þeim flestum. Nú kom tap og ekkert mark.

„Heilt yfir þá var þetta ekki góður leikur hjá okkur. Við höfum oftast spilað betur en í dag. Þetta var jafn leikur og lítið um færi. Við vorum ekki að skila boltanum nógu vel frá okkur þegar við vorum að færa liðið fram á völlinn og þess vegna gekk ekkert að búa til hættuleg færi. Það voru einhverjir skotsénsar og svo eitt færi í lokin. Því miður var ekkert að gerast af viti í sóknarleiknum okkar. Þór/KA gerði meira úr sínum sénsum og refsaði okkur í tvígang. Þær voru ekki að skapa færi nema í þessum mörkum. Mér fannst Þór/KA koma varfærnislega inn í leikinn, ég hélt að þær myndu koma á fullu á okkur í byrjun. Við fáum svo á okkur mark í lokin þegar við vorum að reyna að jafna leikinn. Þetta er enginn heimsendir en okkur líður illa í dag og verðum komin aftur á lappirnar á morgun. Það er bara næsti leikur.“

Þið eigið bikarleik á laugardaginn gegn ÍR.

„Nú er bara að fara að undirbúa þann leik. Við ætlum að vinna þann leik og koma okkur í undanúrslit.

Þorsteinn Halldórsson
Þorsteinn Halldórsson mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert