Höfum ekki efni á svona hlutum

Orri Þórðarson, þjálfari FH var svekktur eftir tap liðsins í …
Orri Þórðarson, þjálfari FH var svekktur eftir tap liðsins í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon.

„Ég er óánægður með þessi úrslit og ósáttur með frammistöðuna líka,“ sagði Orri Þórðarson, þjálfari FH eftir 4:2 tap liðsins gegn Val í sjöundu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í Kaplakrika í dag.

Jasmín Erla Ingadóttir og Hanna Marie Barker skoruðu mörk FH í leiknum en Elín Metta Jensen skoraði tvívegis fyrir Val í dag og þá skoruðu þær Crystal Thomas og Thelma Björk Einarsdóttir sitt markið hvor.

„Við vorum mikið að spila boltanum í sama svæðið í staðinn fyrir að skipta honum á milli kanta en heilt yfir þá voru of margir leikmenn hjá okkur sem voru ekki að eiga góðan dag og við höfum ekki efni á svoleiðis hlutum þessa dagana. Við erum vissulega að skora mörk í hverjum en ég hef meiri áhyggjur af varnarleiknum þessa dagana. Við erum að fá of mörg mörk á okkur.“

FH er nú í neðsta sæti deildarinnar með 3 stig eftir fyrstu sjö umferðirnar og tólf mörk í mínus en Orri vonast til þess að snúa genginu við í næstu leikjum.

„Þessar stelpur sem við höfum fengið til okkar hafa staðið sig mjög vel. Vissulega misstum við sterka pósta síðasta haust en það þýðir ekkert að hengja haus yfir því. Við þurfum bara að bíta í skjaldarrendur, þjappa okkur sama og halda áfram, það er ekkert annað í stöðunni,“ sagði Orri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert