Passa sig að spila ekki of mikinn fótbolta

Guðlaugur Baldursson.
Guðlaugur Baldursson. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Við förum sáttir með stig heim úr þessum leik,“ sagði Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflvíkinga, eftir 0:0 jafntefli við KA í 5. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta nú í kvöld. „Þetta er virkilega erfiður útivöllur og gott lið sem við erum að spila á móti þannig að við erum sáttir.“

Keflvíkingar héldu hreinu í fyrsta skipti í sumar. Guðlaugur var að vonum sáttur með það.

„Það er jákvætt. Svo fannst mér samheldnin og baráttan vera til staðar. Tala nú ekki um í þessum aðstæðum sem voru hér í dag. Boltinn var mikið í loftinu og mikil barátta um boltann.“

„Það er ekki oft sem maður segir við liðið sitt og leikmenn að passa sig á því að spila ekki of mikinn fótbolta en ég viðurkenni það ég sagði það í dag. Það var virkilega erfitt að halda boltanum með jörðinni og spila honum.“

Eftir fimm umferðir hafa Keflvíkingar 2 stig. Hvað finnst Guðlaugi um uppskeruna hingað til?

„Hún er rýr. Auðvitað vildum við vera með fleiri stig en mér finnst við vera að bæta okkur þannig að ég vonast til þess að við náum í þrjú stig á sunnudaginn.“ Keflvíkingar mæta Eyjamönnum á sunnudaginn í afar mikilvægum leik fyrir bæði lið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert