Ætluðum okkur að vera með fleiri stig

Srdjan Tufegdzic, til vinstri.
Srdjan Tufegdzic, til vinstri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við ætluðum okkur sigur í dag og mér fannst strákarnir gera allt til að vinna þennan leik,“ sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA-manna, eftir 0:0 jafntefli gegn Keflavík í 5. umferð Pepsi-deildarinnar í fótbolta í kvöld. „Við gerðum allt sem hægt er að gera á svona velli. Berjumst eins og ljón í öllum seinni boltum. Náum að skapa okkur 3-4 góð færi og ég er vonsvikinn með að hafa ekki unnið leikinn.“

Ástand Akureyrarvallar er ekki gott. Spurður um hvort ástand vallarins aftri leik KA-manna sagði Tufa:

„Að sjálfsögðu viljum við hafa góðan völl til að geta notað alla okkar styrkleika en við vissum að völlurinn væri svona og við verðum bara að venjast því. Við verðum bara að gera okkar besta til að ná úrslitum þótt völlurinn sé ekki klár.“

Markmaðurinn Cristian Martínez meiddist í upphitun og kom Aron Elí Gíslason inn í hans stað og spilaði sínar fyrstu mínútur í efstu deild. Tufa var að vonum ánægður með hans frammistöðu.

„Aron kemur mjög vel inn í þetta. Það er rosalega erfitt að koma svona inn í leikinn. Að fá bara að vita fimm mínútum fyrir leik að þú eigir að spila, sérstaklega þegar þú ert í marki. Aron kemur sterkur inn í þetta og hann á stórt hrós skilið fyrir sína frammistöðu hér í dag.“

Uppskera KA-manna eftir fimm umferðir eru 5 stig. En telur Tufa þetta vera vonbrigði?

„Já þetta eru vonbrigði. Við ætluðum okkur að vera með fleiri stig. En deildin er sterk. Þetta eru rosalega jafnir leikir og erfitt að vinna leiki. Ef við höldum áfram að sýna svona vinnuframlag eins og í dag þá koma miklu fleiri stig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert