Sáttir með spilamennskuna og útkomuna

Einar Karl Ingvarsson reynir skot að marki ÍBV í dag. …
Einar Karl Ingvarsson reynir skot að marki ÍBV í dag. Sigurður Arnar Magnússon er til varnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, var nokkuð léttur í samtali við mbl.is í kvöld, þrátt fyrir 2:1-tap hans manna fyrir Val í Meistarakeppninni í fótbolta. Valur komst í 2:0 en Eyjamenn fengu góð tækifæri til að jafna leikinn undir lokin. 

„Við vorum nokkuð fínir og leikmenn gerðu margt af því sem við lögðum upp með. Það sem vantaði upp á var aðeins meiri áræðni í sóknarleiknum og betri ákvörðunartökur ásamt því að við máttum nýta þessi færi í lokin, annars erum við nokkuð sáttir með að fara svona langt með þennan leik."

„Við vildum þrýsta á þá framar en varð úr. Inn á milli var þetta ágætt og við héldum boltanum ágætlega þó við misstum hann oftar en við lögðum upp með. Við náðum að verjast þeim framar en í deildabikarleiknum við þá um daginn. Varnarleikurinn er í lagi. Þú færð alltaf á þig færi á móti Val en við hefðum þurft að vera heppnari í sóknarleiknum og ég hefði viljað sjá meiri áræðni þar og fleiri sendingar fram á við í þau svæði sem við vildum sækja í."

Hann segir leikurinn gott veganesti fyrir Eyjamenn fyrir sumarið. 

„Við erum sáttir við útkomuna úr leiknum og spilamennskuna þegar allt er tekið saman. Við erum að gera marga góða hluti og þetta hjálpar okkur inn í mótið. Þetta var fín frammistaða sem gefur okkur mjög þægilegan byr til að fara með inn í mótið."

„Við erum allir bjartsýnir. Það eru strákarnir sem gera mig bjartsýnan, þeir hafa trú á þessu og þeir framkvæma hlutina sem við erum að biðja þá um. Þetta var verulega gott skref fram á við í dag."

Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert