Dönsk stemning í Egilshöll

Morten Beck kom KR á bragðið í kvöld.
Morten Beck kom KR á bragðið í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR og Víkingur skildu jöfn, 2:2, í öðrum leik sínum í Reykjavíkurmóti karla í fótbolta í Egilshöllinni í kvöld. Danir sáu um að gera þrjú af mörkunum fjórum. Morten Beck kom KR yfir á 45. mínútu en Nikolaj Hansen jafnaði fyrir Víking á 63. mínútu. Kennie Chopart kom KR aftur yfir á 76. mínútu en Logi Tómasson skoraði jöfnunarmark Víkinga á 86. mínútu og þar við sat.

Leiknir R. og Þróttur R. mættust í sama riðli og svo fór að Leiknir vann, 3:1. KR er í efsta sæti riðilsins með fjögur stig, Leiknir og Þróttur koma þar á eftir með þrjú en Víkingur er í botnsætinu með eitt stig. 

Í Kórnum vann HK óvæntan sigur á FH, 2:1 í A deild Fótbolta.net mótsins. Þórarinn Ingi Valdimarsson kom FH yfir í fyrri hálfleik en Brynjar Jónasson skoraði tvívegis í seinni hálfleik og tryggði HK sigur. HK er í toppsæti riðilsins með sex stig eftir tvo leiki en FH í þriðja sæti með eitt stig. Grindavík er í 2. sæti með fjögur stig og Keflavík rekur lestina án stiga. Í B deildinni skildu Selfoss og Vestri jöfn, 2:2. Vestri er í toppsæti riðilsins með fjögur stig, Haukar í 2. sæti með þrjú stig, Selfoss í þriðja með eitt stig og Víðir án stiga. 

Ármann Pétur Ævarsson skoraði sigurmark Þórs á Magna í A deild Kjarnafæðimótsins, en leikið var í Boganum. Þór hefur unnið báða leiki sína til þessa á mótinu en Magni einn leik og tapað tveimur. 

Loks unnu Haukar 4:1-sigur á Tindastóli á Ásvöllum í B riðli Faxaflóamóts kvenna. Bæði lið voru að leika sinn fyrsta lið á mótinu en ÍA hafði betur gegn Gróttu í sama riðli í fyrradag.

Upplýsingar um markaskorara leiks KR og Víkings fengust á fotbolti.net. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert