KSÍ fór gegn reglum Samkeppniseftirlitsins

Félög í Pepsi-deildinni þurfa nú ekki að rukka það sama …
Félög í Pepsi-deildinni þurfa nú ekki að rukka það sama inn á leiki. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Knattspyrnusamband Íslands hefur skuldbundið sig til þess að gera ekki kröfu um að aðildarfélög sambandsins rukki það sama inn á leiki eftir athugasemd Samkeppniseftirlitsins.

Á heimasíðu KSÍ er greint fá því að KSÍ og Samkeppniseftirlitið hafi komist að sátt eftir að eftirlitið óskaði eftir upplýsingum með hvaða hætti sameiginlegt miðaverð hafi verið ákveðið á leiki í Pepsi-deild karla sumarið 2017.

Benti Samkeppniseftirlitið á að samkeppnislög leggja bann við samningum og samþykktum á milli fyrirtækja og ákvörðunum samtaka fyrirtækja sem hafa það að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún takmörkuð eða henni raskað. 

Svo starfsemi á vettvangi KSÍ sé í samræmi við samkeppnislög, hefur KSÍ skuldbundið sig með sátt við Samkeppniseftirlitið til að grípa til aðgerða. Eitt af því er að ekki verði fjallað um, miðlað, skipst á upplýsingum eða höfð samvinna um verð, verðþróun, viðskiptakjör eða önnur viðskiptaleg eða samkeppnisleg málefni aðildarfélaga sambandsins.

Þá mun KSÍ ekki fara með málefni eða opinbert fyrirsvar er varða verðlagningu aðildarfélaga. KSÍ er óheimilt að grípa til aðgerða sem geta leitt til samræmingar á verðlagningu og öðrum samkeppnisþáttum í starfsemi aðildarfélaga. 

Nánar er fjallað um málið á heimasíðu KSÍ sem finna má HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert