Tækifærum sem þessum fer fækkandi

Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson mbl.is/Golli

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, segir mikilvægi janúarverkefna liðsins vera ótvírætt því ekki gefist mörg tækifæri til að skoða unga leikmenn í landsleikjum. Þeim muni jafnframt fara fækkandi á næstu árum. 

„Mjög mikilvægt er að geta verið með að minnsta kosti eitt verkefni þar sem við erum afslappaðri og getum gefið leikmönnum tækifæri. Sérstaklega þeirra fyrstu tækifæri. Leikmenn verða eiginlega ekki A-landsliðsmenn fyrr en eftir nokkra leiki. Við spilum það stóra og mikilvæga landsleiki að ekki hefur verið hægt að gefa mönnum tækifæri upp á von og óvon að þeir standi sig. Verkefni sem þetta í Indónesíu er því gríðarlega gott hvað það varðar að gefa mönnum tækifæri til að spila fyrstu A-landsleikina. Landsleikjadögum mun fækka og dagsetningarnar í janúar fara að verða þær einu sem eru í boði fyrir okkur fyrir vináttuleiki. Okkar von er að þegar menn eru komnir svona nálægt landsliðinu taki þeir stökk á sínum ferli og bæti sig næstu sex mánuði og berjist um að komast í landsliðið sem fer til Rússlands,“ sagði Heimir en ekkert tækifæri verður til að spila vináttulandsleiki árið 2019. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert