Kveikti á perunni vegna óvenju hlýlegs viðmóts

Hilmar Árni Halldórsson í leik með Stjörnunni gegn KR á …
Hilmar Árni Halldórsson í leik með Stjörnunni gegn KR á síðasta tímabili. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það er heiður að fá að taka þátt í þessu verkefni,“ sagði Hilmar Árni Halldórsson, leikmaður Stjörnunnar sem er einn fjögurra nýliða karlalandsliðsins í knattspyrnu sem valdir voru í til þess að taka þátt í verkefni liðsins í Indónesíu, þar sem liðið mun leika tvo vináttulandsleiki í janúar.

Hilmar mætti á æfingu með Stjörnunni áðan og vissi þá ekki að landsliðshópurinn í þetta verkefni hefði verið kunngjörður. Það var ekki fyrr en Hörður Árnason, bakvörður og liðsfélagi Hilmars tók í höndina á honum og óskaði Hilmari til hamingju að hann áttaði sig á því að hann hefði verið valinn.

„Hann kom þarna og greip í spaðann á mér og var óvenju hlýlegur,“ sagði Hilmar léttur og kveikti þá strax á perunni þar sem hann vissi af valinu í dag.

„Ég hafði sjálfur svo sem ekki mikið pælt í þessu. Þannig að já,“ sagði Hilmar aðspurður hvort valið hefði komið honum á óvart.

Hilmar hefur verið einn af öflugri leikmönnum úrvalsdeildarinnar undanfarin ár og hefur skorað og átt stóran þátt í miklum hluta marka Stjörnunnar síðustu tvö tímabil.

Hilmar Árni Halldórsson.
Hilmar Árni Halldórsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ef maður stendur sig vel þá tekur vonandi einhver eftir því en ég trúi bara á það að einbeita sér að því sem er fyrir framan þig. Svo gerast vonandi aðrir góðir hlutir en það er ekkert alltaf í höndum manns,“ sagði Hilmar við mbl.is. Hann horfi því ekki mikið lengra en á þetta verkefni sem framundan er en draumurinn um atvinnumennskuna er þó til staðar en hann er 25 ára gamall.

„Það hefur alltaf verið stefnan,” sagði Hilmar Árni varðandi möguleikann á atvinnumennskunni „en aðallega reyni ég að einbeita mér að því verkefni sem ég er í á hverri stundu. Nú er það að reyna að standa mig eins vel og ég get fyrir Stjörnuna og það sama á við um þetta verkefni þar sem ég mun bara reyna að spila minn besta leik og svo sjáum við hvert það leiðir,” sagði Hilmar Árni.

Varðandi möguleikann á að komast í lokahópinn sem fer á HM í Rússlandi segist Hilmar ekki hafa leitt hugann að því. „Ég var lítið að pæla í þessu vali og minna að pæla í Rússlandi. En þetta er ákveðið tækifæri og ákveðinn gluggi og ég geri mitt besta eins og allir aðrir þarna,“ sagði Hilmar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert