Ísland og Perú mætast líklegast í mars

Íslenska landsliðið mætir líklegast Perú á næsta ári.
Íslenska landsliðið mætir líklegast Perú á næsta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu leikur að öllum líkindum vináttuleik gegn Perú í mars á næsta ári í undirbúningi sínum fyrir HM í Rússlandi. Þetta kemur fram í fjölmiðlum í Perú í dag og segir Juan Oblitas hjá knattspyrnusambandi Perú að samningaviðræður séu nánast í höfn. 

Landsleikjahlé er frá 19.-27. mars og verður leikurinn líklega spilaður í Bandaríkjunum. Perú er á 11. sæti heimslistans og er með Danmörku, Frakklandi og Ástralíu í riðli á HM. 

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari hefur sagst vilja mæta þjóðum frá Suður-Ameríku og Afríku í undirbúningi fyrir Argentínu og Nígeríu í riðlakeppni HM. 

Ísland og Perú hafa aldrei mæst í knattspyrnulandsleik í neinum aldursflokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert