Margir Ítalir ætla að halda með Íslandi

Íslensku landsliðsmennirnir fagna HM-sætinu í haust.
Íslensku landsliðsmennirnir fagna HM-sætinu í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ítalska þjóðin hefur verið í áfalli síðustu dagana eftir að það varð ljóst að Ítalía verður ekki á meðal þátttökuþjóða á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem fram fer í Rússlandi á næsta ári.

Í fyrsta sinn í 60 ár verða fjórfaldir heimsmeistarar Ítala ekki með í lokakeppni HM en Svíar slógu þá út í umspilinu um farseðilinn á HM í vikunni.

Ítalska blaðið Corriere dello Sport var með skoðanakönnun um það með hvaða þjóð Ítalir ætla að halda með á HM. 53% þeirra sem tóku þátt í könnuninni ætla að ekki að halda með neinu liði en flestir ætla að halda með Brasilíu, Spáni og Íslandi. 7% ætla að halda með Brasilíumönnum og Spánverjum og 6% með Íslendingum.

Ítalir hafa litlar sem engar taugar til Svía en aðeins 3% ætla að styðja sænska landsliðið á HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert