Undirbúningur markvarðanna hefðbundinn

Markverðirnir þrír: Guðbjörg Gunnarsdóttir, Sandra Sigurðardóttir og Sonný Lára Þráinsdóttir.
Markverðirnir þrír: Guðbjörg Gunnarsdóttir, Sandra Sigurðardóttir og Sonný Lára Þráinsdóttir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ísland mætir Þýskalandi í Wiesbaden á morgun í undankeppni HM kvenna í knattspyrnu. Íslensku markverðirnir haga undirbúningi sínum eins og fyrir aðra leiki þótt andstæðingurinn sé margfaldur Evrópumeistari.

„Við undirbúum okkur alltaf eins fyrir leiki. Við æfum vel og skoðum videóklippur. Reynum að vera viðbúnar öllu,“ sagði Sonný Lára Þráinsdóttir, einn markvarða íslenska landsliðsins.

Óli markmannsþjálfari (Ólafur Pétursson) sendir okkur markvörðum videóklippur af andstæðingunum sem við getum skoðað umfram það sem er skoðað á videófundum hjá öllu liðinu. Þar sjáum við mörk andstæðinganna, vítaspyrnur og önnur föst leikatriði.

Sonný segir það liggja fyrir að Guðbjörg Gunnarsdóttir sé aðalmarkvörður landsliðsins en segir samvinnuna vera góða á milli hennar, Guðbjargar og Söndru Sigurðardóttur.

„Gugga hefur verið að spila landsleikina og hefur gert það lengi vegna þess að hún hefur staðið sig vel. Við erum tilbúnar ef eitthvað gerist. Við styðjum við bakið hver á annarri og hvetjum hver aðra áfram,“ sagði Sonný Lára Þráinsdóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert