„Erum að mæta geggjuðu liði“

Ingibjörg Sigurðardóttir.
Ingibjörg Sigurðardóttir. mbl.is/Golli

„Þetta verður spennandi en um leið mjög erfitt. Við erum að mæta geggjuðu liði sem er  örugglega eitt það sterkasta sem við höfum mætt. Þetta verður áskorun,“ sagði varnarjaxlinn Ingibjörg Sigurðardóttir þegar mbl.is spjallaði við hana í Wiesbaden þar sem Ísland mun mæta Þýskalandi í undankeppni HM á föstudaginn.

Ingibjörg fékk eldskírn sína í sumar gegn öðru elítuliði, Frakklandi, í fyrsta leiknum í lokakeppni EM í Hollandi. Ísland spilaði þá sterkan varnarleik og var mjög nálægt stigi gegn Frökkum.

„Þessi leikur gæti orðið mjög svipaður. Við munum spila mikla vörn en ég held að Þýskaland sé ekki með eins góða einstaklinga og Frakkland en sé betra lið. Þær þýsku eru mjög skipulagðar og hafa spilað lengi saman. Margar þeirra hafa spilað fullt af stórum landsleikjum. Ég held að það sé alveg á hreinu að við verðum minna með boltann og meira í því að verjast en þurfum að nýta þau tækifæri sem gefast þegar við vinnum boltann,“ sagði Ingibjörg þegar mbl.is spjallaði við hana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert