Árni Snær áfram hjá ÍA

Við undirskriftina í dag.
Við undirskriftina í dag. Ljósmynd/ÍA

Markmaðurinn Árni Snær Ólafsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við ÍA. Árni er 26 ára gamall og lék hann sinn fyrsta leik fyrir ÍA árið 2009 og hefur hann meira og minna verið aðalmarkmaður liðsins síðan 2014. 

Árni lék lítið með ÍA í sumar vegna meiðsla, en liðið féll úr Pepsi-deildinni. Í kjölfarið tók Jóhannes Karl Guðjónsson við liðinu og er honum ætlað að koma ÍA aftur í deild þeirra bestu. 

„Það er gríðarlegur metnaður í gangi hjá ÍA og spennandi verkefni framundan við að koma liðinu aftur í röð þeirra bestu. Ég vil svo sannarlega taka þátt í þeirri áskorun og þar skiptir miklu máli að ég er einfaldlega með svo stórt Skagahjarta. Ég hlakka líka til að starfa með nýjum þjálfurum liðsins þeim Jóa Kalla og Sigga Jóns, þar er öflugt teymi á ferðinni," sagði Árni Snær.

Jóhannes Karl Guðjónsson nýráðinn þjálfari ÍA liðsins er að vonum ánægður með þessi tíðindi: „Árni er lykilmaður í Skagaliðinu og hann hefur sýnt að auk þess að vera feikna góður markmaður þá er hann líka mikill leiðtogi á vellinum. Undir stjórn Guðmundar Hreiðarssonar markmannsþjálfara ÍA  hefur Árni náð miklum framförum undanfarin ár og stimplað sig inn sem einn af allra bestu markvörðum landsins,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert