Tryggir FH sér Evrópusæti?

Igor Jugovic og Bergsveinn Ólafsson mætast í dag.
Igor Jugovic og Bergsveinn Ólafsson mætast í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölnir getur farið langt með að tryggja sér áframhaldandi veru í efstu deild með sigri á FH í dag. Að sama skapi geta FH-ingar tryggt sér Evrópusæti með sigri í þessum leik úr 15. umferð sem var frestað á sínum tíma vegna þátttöku FH í Evrópukeppni.

Fjölnir og FH mætast í Grafarvogi í dag kl. 16.30 og að þeim leik loknum verða tvær umferðir eftir. Fjölnir er fyrir leikinn stigi frá fallsæti en FH stigi á eftir Stjörnunni sem er í 2. sæti. Með sigri í dag næði FH sjö stiga forskoti á KR sem er í 4. sætinu, með sex stig í pottinum, en FH hefur unnið þrjá leiki í röð.

Fjölnismenn hafa ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum við FH-inga í gegnum tíðina, en fögnuðu þó í fyrsta sinn frá upphafi sigri í deildarleik á milli liðanna í Kaplakrika fyrr í sumar, 2:1. Ivica Dzolan kom Fjölni yfir í lok fyrri hálfleiks en Emil Pálsson jafnaði metin um miðjan seinni hálfleik. Þórir Guðjónsson skoraði svo sigurmarkið tíu mínútum fyrir leikslok. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert