Hættur með HK/Víking eftir sætið í efstu deild

Jóhannes Karl Sigursteinsson, unnusti Hörpu Þorsteinsdóttur, með synina tvo.
Jóhannes Karl Sigursteinsson, unnusti Hörpu Þorsteinsdóttur, með synina tvo. mbl.is/Elín

„Ég fer virkilega sáttur og skil eftir ótrúlega spennandi verkefni,“ segir Jóhannes Karl Sigursteinsson í samtali við mbl.is í dag. Hann hefur látið af störfum sem þjálfari HK/Víkings í knattspyrnu, aðeins örfáum dögum eftir að hafa stýrt liðinu til sigurs í 1. deild kvenna og upp í efstu deild.

Jóhannes Karl er eiginmaður Hörpu Þorsteinsdóttur, landsliðskonu og leikmanns Stjörnunnar, en þau eignuðust annað barn síðasta vetur og segir Jóhannes að hann þurfi meira tíma fyrir fjölskylduna.

„Það hefur verið mjög erfitt púsl að ná að sinna öllu. Það er þannig að fótboltaþjálfun er í dag orðið 100% starf sem samt er gert ráð fyrir að hægt sé að sinna aðeins hluta úr degi. Ég hef ekki tök á því að gefa tímann sem þarf í þetta og taldi því best að stíga til hliðar og sinna fjölskyldunni,“ segir Jóhannes við mbl.is.

HK/Víkingur með bikarinn eftir sigur í 1. deild kvenna á …
HK/Víkingur með bikarinn eftir sigur í 1. deild kvenna á dögunum. mbl.is/Golli

Örugglega margir sem vilja taka við

Hann segir að það hafi verið ljóst að hann myndi ekki halda áfram eftir tímabilið hvort sem HK/Víkingur hefði farið upp í efstu deild eða ekki. Fótboltaþjálfun í dag sé einfaldlega ekki borguð í samræmi við vinnuálag.

„Það eru allir leikir teknir upp og það þarf að greina hvern einasta leik. Það er mikil fagmennska og góð umgjörð í kringum þessi lið en ekki gert ráð fyrir því í ráðningarsamningum í kvennaboltanum að svona mikill tími sé settur í þetta. Það er því eðlilegt að einhver aðili taki svona spennandi verkefni að sér sem hefur betri tök á að sinna því.“

Jóhannes Karl starfar einnig á NM-auglýsingastofu og hefur áður þjálfað kvennalið Stjörnunnar og Breiðabliks. Hann sér ekki fyrir sér að fara í aðra þjálfun á næstunni en mun hins vegar ekki láta sitt eftir liggja í stúkunni og styður við bakið á Hörpu.

Já ég fylgist með henni og fylgist með HK/Víkingi, svo það verður nóg að gera að kíkja á völlinn. Ég geri ekki ráð fyrir því að taka að mér nein verkefni, nú tek ég tíma í að sinna fjölskyldunni og læt 9-5 vinnu bara duga. Ég hef enga trú á öðru en það séu margir sem horfa á að taka þetta að sér, enda gríðarlega mikill efniviður til staðar og frábær umgjörð,“ segir Jóhannes Karl Sigursteinsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert