Fannst ég ofmetinn en aldrei verið betri en nú

Eiður Aron Sigurbjörnsson í leik með Val.
Eiður Aron Sigurbjörnsson í leik með Val.

„Það var eitthvert húllumhæ, mismikið hjá mönnum, en ætli það verði ekki allir skyldaðir til að fagna þessu almennilega þegar tímabilinu lýkur,“ segir Eiður Aron Sigurbjörnsson, miðvörður Vals, sem á sunnudag gat fagnað sínum fyrsta titli í meistaraflokki þegar Valur varð Íslandsmeistari í knattspyrnu.

Eiður, sem er 27 ára uppalinn Eyjamaður, hefur slegið í gegn í vörn Vals eftir að hann sneri heim úr atvinnumennsku í byrjun sumars. Hann hafði verið tvö síðustu ár hjá Holstein Kiel í þýsku 3. deildinni, en lítið spilað, en fékk að fara til Vals í maí. Þá hafði Kiel tryggt sér sæti í 2. deild þar sem liðið er nú í toppbaráttu. Með Eið í vörninni hefur Valur aðeins fengið á sig 9 mörk í 13 leikjum, og hann átti stórgóðan leik þegar liðið tryggði sér endanlega titilinn með 4:1-sigri á Fjölni í 20. umferð:

„Það er geggjuð tilfinning að ná loksins að vinna titil. Við vorum nálægt þessu með ÍBV árið 2010 en ég vissi það þegar ég kom aftur til Íslands í vor að við ættum raunhæfan möguleika á að vinna þennan titil. Mér finnst við hafa verið bestir í allt sumar, og það er sætt að klára dæmið þegar enn eru tvær umferðir eftir,“ segir Eiður, sem á að baki 5 leiktíðir með ÍBV í efstu deild. Hann gekk í raðir sænska úrvalsdeildarfélagsins Örebro árið 2011 og samdi við það til fjögurra ára, en var lánaður til ÍBV og Sandnes Ulf í Noregi á þeim tíma. Hann átti svo gott tímabil með Örebro árið 2015 áður en hann fór til Þýskalands, en við komuna heim til Íslands samdi hann við Val. Þar hefur hann myndað öflugt miðvarðapar með Orra Sigurði Ómarssyni:

„Það er búið að vera mjög fínt og við höfum náð vel saman. Það skiptir eiginlega engu máli hver spilar við hliðina á manni í þessu liði. Það vita allir sitt hlutverk, hvort sem þeir eru í byrjunarliðinu, á bekknum eða jafnvel utan hóps. Það eru allir með sitt á hreinu. Það hefur gengið jafnvel hvort sem er í þriggja manna eða fjögurra manna varnarlínu.“

Nánar er rætt við Eið Aron í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. Þar má einnig finna lið 20. umferðar, stöðuna í M-gjöfinni og sitthvað fleira.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert