Gott að ná að losa stífluna

Elín Metta Jensen í baráttunni í leik Íslands gegn Færeyjum …
Elín Metta Jensen í baráttunni í leik Íslands gegn Færeyjum í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elín Metta Jensen fékk það hlutverk að leiða framlínu íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu þegar liðið hóf vegferð sína í átt að lokakeppni HM sem fram fer í Frakklandi árið 2019 með því að mæta Færeyjum á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Elín Metta nýtti tækifærið gríðarlega vel, en eftir tæplega hálftíma leik hafði hún skorað tvö mörk og lagt upp mark fyrir Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur. Þegar yfir lauk hafði íslenska liðið skorað átta mörk án þess að færeyska liðið næði að svara fyrir sig.

„Mér fannst við leysa þetta verkefni vel. Við vorum þolinmóðar og héldum okkar skipulagi allan leikinn. Við fórum eftir því uppleggi sem þjálfarinn lagði upp fyrir leikinn. Ég er mjög ánægð með mína frammistöðu sem og alls liðsins,“ sagði Elín Metta í samtali við Morgunblaðið eftir leikinn í gærkvöldi.

„Það var mjög þægilegt að ná að skora snemma og það létti á pressunni á liðinu. Okkur gekk illa að skora á EM í sumar og það var gott að ná að losa þá stíflu. Það sem var mikilvægast var að ná í þrjú stig og góður bónus að takast að skora átta mörk,“ sagði Elín Metta um eigin frammistöðu og spilamennsku íslenska liðsins.

Sjö landsliðsmörk

Elín Metta hefur nú skorað sjö mörk í þeim 30 leikjum sem hún hefur spilað fyrir íslenska liðið. Elín Metta er meðvituð um að það bíða leikmenn á varamannabekknum og á hliðarlínunni reiðubúnir að hrifsa af henni sætið ef hún stendur ekki í stykkinu. Elín Metta sýndi það svo sannarlega að hún ætlar ekki að gefa eftir sætið í broddi fylkingar í liðinu baráttulaust.

„Það er mikil samkeppni í liðinu og ég var ánægð þegar ég frétti það í vikunni að ég myndi byrja í fremstu víglínu. Það vilja allir leikmenn liðsins byrjar inni á og því er mikilvægt að nýta tækifærið vel þegar maður spilar. Þannig á það líka að vera og það hjálpar leikmönnum að standa sig vel,“ sagði Elín Metta um andann í leikmannahópnum.

„Það eru allt öðruvísi verkefni sem bíða okkar í október þegar við mætum Þýskalandi og Tékklandi. Við þurfum að halda vel á spöðunum í haust. Við þurfum að æfa vel eftir að tímabilinu lýkur hér heima og mæta í toppformi. Við höfum trú á því að við getum náð í stig í þessum leikjum. Þetta eru liðin sem munu berjast á toppnum og það er mikilvægt að ná að hala inn einhver stig,“ sagði Elín Metta um framhaldið hjá íslenska liðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert