Þetta spilaðist upp í hendurnar á þeim

Frá leiknum í Ólafsvík í dag.
Frá leiknum í Ólafsvík í dag. Ljósmynd/Tómas Freyr Kristjánsson

„Þessi leikur var í rosalega miklu jafnvægi og það var erfitt að spila í þessum aðstæðum. Sigurinn hefði getað dottið báðum megin og þetta var spurning um hvort liðið myndi gera færri mistök," sagði Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur eftir 3:1-tap gegn Víkingi R. í Pepsi-deild karla í kvöld. 

„Við gerðum fleiri mistök og þeir refsuðu okkur. Alltaf þegar við vorum að ná yfirhöndinni gerðum við mistök. Aðstæðurnar voru erfiðar fyrir bæði lið en þeir nýttu færin sín betur. Við skoruðum sjálfmark og fengu víti og þetta spilaðist svolítið upp í hendurnar á þeim. Ég er ánægður með baráttuna og hugarfarið hjá mínum leikmönnum."

Guðmundur Stein Hafsteinsson, Kenan Turudija, Kwame Quee og Tomasz Luba voru ekki með Ólafsvíkingum í dag og segir Ejub það hafa haft áhrif. 

„Það hefur alltaf áhrif þegar leikmenn sem þú ert að nota í hverjum leik eru ekki með. Þá er erfiðara að halda þéttleikanum og vera inn í leiknum. Ég hefði viljað nota þessa leikmenn í dag, en svo var ekki, við notuðum eins gott lið og við gátum."

Víkingur er nú einu stigi frá fallsæti þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. 

„Þetta er ekki góð staða, hún var slæm fyrir leik og nú er þetta enn erfiðara. Maður vonar að þetta detti aðeins okkar megin. Þetta var alls ekki slæmur leikur í dag, en þetta datt ekki okkar megin. Það eru ekki mög stig í boði og við verðum að undirbúa okkur fyrir FH í næsta leik og við verðum að gera okkar besta og sjá hvort það dugi," sagði Ejub. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert