Snerti boltann ekkert með höndunum

Guðbjörg Gunnarsdóttir hafði afar lítið að gera í kvöld. Hér …
Guðbjörg Gunnarsdóttir hafði afar lítið að gera í kvöld. Hér er byrjunarliðið í upphafi leiks. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég man ekki eftir leik þar sem ég hafði minna að gera. Ég man ekki eftir því að hafa snert boltann með höndunum. Ég reyndi að halda mér eins mikið inni í leiknum og ég gat og sogast ekki í það að vera áhorfandi á leiknum,“ sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 8:0-sigur liðsins gegn Færeyjum í undankeppni HM 2019 á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Þetta var leikur sem við vissum að við áttum að vinna og þetta var afar þægilegur sigur. Það er eitt að segja að verkefni séu auðveld og annað að sýna það í verki. Við létum verkin tala í þessum leik og kláruðum þetta af fagmennsku. Við skoruðum fín mörk, hefðum vissulega getað klárað færin betur, en við kvörtum ekki eftir 8:0-sigur,“ sagði Guðbjörg um spilamennsku íslenska liðsins í leiknum.

„Framundan er mjög spennandi verkefni. Það verður geggjað að mæta einu af bestu liðum heims, Þýskalandi, á þeirra eigin heimavelli. Við höfum allt að vinna í þeim leik og engu að tapa. Við sýndum það gegn Frakklandi á EM í sumar að eigum í fullu tré við þjóðir í þessum gæðaflokki og planið er að freista þess að ná í stig,“ sagði Guðbjörg um leikinn við Þjóðverja sem er handan við hornið. 

Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu hafði það náðugt …
Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu hafði það náðugt í leiknum gegn Færeyjum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert