Pirraður yfir að hafa misst af 6-7 leikjum

Víkingar fagna marki Geoffrey Castillion í dag.
Víkingar fagna marki Geoffrey Castillion í dag. Ljósmynd/Tómas Freyr Kristjánsson

„Mér líður mjög vel og það var gott að fá stigin þrjú. Neðstu liðin hafa verið að fá stig að undanförnu og það var mikilvægt að slíta okkur frá þeim. Þetta var góður leikur þó að völlurinn hafi verið mjög erfður. Við sýndum karakter og náðum í sigurinn," sagði Geoffrey Castillion, framherji Víkings R. eftir 3:1- útisigur á Víkingi Ó. í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. 

Völlurinn var mjög blautur og var rok og rigning allan leikinn. Hefur Castillion spilað í svona aðstæðum áður? 

„Já, en ekki oft," sagði hann og hló. „Það var mikill vindur í gær og þess vegna spiluðum við í dag, það var aðeins minni vindur í dag. Það var mjög blautt og mikið um polla á vellinum, en við þurftum að spila og við gerðum okkar besta. Ég er frá Hollandi og það rignir mikið þar líka. Ég vill frekar spila á betri völlum, en svona er þetta, við verðum að spila."

Castillion hefur spilað mjög vel að undanförnu eftir að hafa misst af leikjum á miðju sumri. 

„Ég var svolítið pirraður að missa af 6-7 leikjum vegna meiðsla. Ég er mjög ánægður með að vera að skora mikið og vonandi næ ég að skora meira í síðustu tveimur leikjunum. Við eigum tvo leiki eftir og við munum reyna að vinna þá. Maður vill alltaf vinna þá leiki sem við spilum og við ætlum að halda áfram í síðustu tveimur leikjum," sagði Castillion að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert