Mikilvægur sigur Víkings R. í Ólafsvík

Víkingur Reykjavík er svo gott sem búinn að bjarga sér frá falli úr Pepsi-deild karla í knattspyrnu eftir 3:1-sigur á nöfnum sínum frá Ólafsvík fyrir vestan í dag. Ólafsvíkingar eru hins vegar enn í næstneðsta sæti, einu stigi frá öruggu sæti í deildinni þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. 

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og gekk liðunum illa að spila boltanum sín á milli á rennblautum vellinum. Mikið var um hressilegar tæklingar og minna um fallega spilamennsku. Gestirnir náðu hins vegar forystunni úr fyrsta alvöru færi sínu á 26. mínútu. Geoffrey Castillion fékk þá gott færi innan teigs eftir sendingu frá Davíð Erni Atlasyni sem hann nýtti vel. 

Víkingur R. var nálægt því að tvöfalda forskotið sitt skömmu síðar þegar Davíð Örn Atlason komst í gott færi en Nacho Herras bjargaði með glæsilegri tæklingu. Pape Faye komst næst því að skora fyrir heimamenn í fyrri hálfleik en aukaspyrna hans rétt utan teigs fór yfir markið og var staðan því 1:0, gestunum í vil, í hálfleik. 

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri, liðunum gekk illa að skapa sér færi og var lítið um skemmtileg tilþrif. Á 63. mínútu tvöfölduðu gestirnir hins vegar forystuna er Aleix Egea skallaði í eigið net af stuttu færi. Ólsarar svöruðu hins vegar aðeins mínútu síðar er Pape fylgdi eftir skoti Þorsteins Más Ragnarssonar og kláraði vel af stuttu færi. 

Á 77. mínútu skoraði Castillion sitt annað mark er Emir Dokara braut á Alex Frey Hilmarssyni innan teigs. Hollendingurinn fór á punktinn og skoraði af öryggi. Ólsarar reyndu allt hvað þeir gátu til að minnka muninn en illa gekk að skapa sér færi og mikilvægur sigur Víkings R. staðreynd. 

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

Víkingur Ó. 1:3 Víkingur R. opna loka
90. mín. Bjartur Bjarmi Barkarson (Víkingur Ó.) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert