Leið eins og í fyrirgjafaræfingu

Hallbera Guðný Gísladóttir á fullri ferð í leiknum í kvöld.
Hallbera Guðný Gísladóttir á fullri ferð í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við hefðum klárlega tekið þessari niðurstöðu fyrirfram. Miðað við hvernig leikurinn spilaðist þá hefði ég viljað sjá okkur nýta færin betur og ég hefði sjálf getað gert betur í nokkrum tilfellum þegar ég var komin í góða stöðu til þess að senda boltann fyrir,“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir í samtali við mbl.is, en hún lagði upp fjögur af átta mörkum íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í 8:0-sigri gegn Færeyjum í undankeppni HM 2019 á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Við náðum ansi oft að tvöfalda á bakverði þeirra og ég fékk mikið pláss til þess að senda boltann fyrir. Ég er svo klikkuð að ég vill alltaf gera betur, en ég náði að leggja upp nokkur mörk fyrir samherja mína sem er mjög jákvætt. Þetta minnti mig á fyrirgjafaæfingu á köflum, þetta er mín uppáhalds staða á vellinum og ég hafði mjög gaman af þessu,“ sagði Hallbera sem átti afar margar hnitmiðaðar fyrirgjafir inn á vítateig færeyska liðsins í kvöld. 

„Við verðum að mæta mjög grimmar í leikina gegn Þjóðverjum og Tékkum. Það vita allir hversu öflugu liði Þýskaland hefur á að skipa og Tékkland er einnig með gott lið. Þetta verða tveir erfiðir leikir þar sem við stefnum þó á að ná í stig. Ég er mjög spennt fyrir því að fara í þessa hörkuleiki,“ sagði Hallbera um framhaldið hjá íslenska liðinu.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert