Kann vel við mig í hægri bakverðinum

Ingibjörg Sigurðardóttir í leiknum í kvöld.
Ingibjörg Sigurðardóttir í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var mjög gaman að fá að spreyta sig í nýrri stöðu og mér fannst ég leysa hægri bakvarðatöðuna afar vel. Mér leið vel í þessari stöðu, þetta var nýtt og spennandi. Ég tók líka mikið þátt í sóknarleiknum sem var skemmtilegt,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir í samtali við mbl.is, en hún lék í stöðu hægri bakvarðar þegar Íslands gjörsigraði Færeyjar, 8:0, í undankeppni HM 2019 í knattspyrnu kvenna á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Við lögðum upp með að tvöfalda á köntunum og ég var í smá ströggli í upphafi leiks. Mér óx hins vegar ásmegin eftir því sem leið á leikinn fannst mér eftir því sem ég lærði inn á þetta nýja hlutverk,“ sagði Ingibjörg sem lagði upp mark Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur með góðri fyrirgjöf utan af hægri kantinum. 

„Framhaldið er nokkuð óráðið hjá mér, það er að segja eftir að tímabilinu lýkur hjá Breiðabliki. Ég mun finna mér til þess að æfa með og halda mér í góðu formi. Ég hef fengið fyrirspurnir frá félögum að utan og ég mun sjá til hvort mér lítist nógu vel á eitthvað af þeim félögum. Það kemur bara í ljós,“ sagði Ingibjörg um komandi vikur fram að leikjunum gegn Þýskalandi og Tékklandi í undankeppninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert