Fyrsta skipti sem ég skora tvö mörk

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagnar eftir að hafa skorað fyrra mark …
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagnar eftir að hafa skorað fyrra mark sitt í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var afar kærkomið að ná að skora átta mörk. Þær lágu mjög aftarlega á vellinum og það getur verið erfitt að skora gegn liðum sem pakka í vörn. Mér fannst við hins vegar gera hlutina ágætlega í sóknarleiknum og dagsverkið var bara fínt,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í samtali við mbl.is, en hún skoraði tvö marka íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu sem lagði Færeyjar að velli með átta mörkum gegn engu þegar liðið mættir Færeyjum í undankeppni HM 2019 á Laugardalsvelli í kvöld.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég skora tvö mörk í landsleik. Það var mjög gaman að á þeim áfanga. Það skiptir auðvitað ekki máli hverjar skora mörkin, en það gleður alltaf að sjá boltann í markinu sérstaklega þegar það gerist með landsliðinu,“ sagði Gunnhildur Yrsa sem hefur nú skorað sjö mörk í 46 leikum sínum fyrir íslenska liðið. 

„Við lögðum upp með ákveðna leikáætlun og við héldum okkur við þá áætlun mestmegnis í leiknum. Við vorum þolinmóðar og áætlunin gekk afar vel upp. Það var ljúft að ná að brjóta ísinn snemma. Mörkin komu með reglulegu millibili og það getur reynst dýrmætt í lokin að hafa náð að skora tvö mörk í lok leiksins,“ sagði Gunnhildur Yrsa um frammistöðu íslenska liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert