Ég sá það sem ég vildi sjá

Leikmenn Íslands fagna sigrinum gegn Færeyjum í kvöld og lengst …
Leikmenn Íslands fagna sigrinum gegn Færeyjum í kvöld og lengst til hægr er Freyr Alexandersson, þjálfari liðsins. Kristinn Magnússon

„Ég er sáttur við leik liðsins, vel spilað en ég á eftir að skoða tölfræðina eins og sendingar, móttökur og svoleiðis grunnfræði en mér fannst þetta bara líta vel út,“ sagði Freyr Alexandersson þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu eftir 8:0 sigur á Færeyjum þegar liðin mættust í fyrsta leik Íslands í 5. riðli á Laugardalsvelli í kvöld.     „Ég sá það sem ég vildi sjá í leiknum, við skorum átta mörk og Færeyingar fá ekki færi.  Það var gott jafnvægi í leiknum þó það hafi komið kaflar þegar við duttum niður á þeirra plan en við náum takti aftur svo ég var ánægður með þetta“.

Varstu smeykur við einbeitingu leikmanna gegn slakara liði?

„Já, ég var það. Þetta er flókið en við nálguðumst þetta þannig í vikunni að við fækkuðum fundum og jukum ákefðina á æfingum, æfðum mikið og leituðum svolítið inná við hjá leikmönnum – hvað hungur er í þeim, hvað vilja þeir gera og hvað vilja þeir sýna.  Við einfölduðum alla taktík og mér fannst það ganga vel.“

Var áhersla á að skora sem flest mörk?

„Við lögðum ekki áherslu á að skora sem flest mörk en erum meðvituð um að það geti skipt máli.  Þannig er að ef við lendum í öðru sæti riðilsins þá þurrkast markatalan út á móti lakasta liðinu en ef við erum, segjum svo, jöfn Þýskalandi í efsta sætinu þá telur markatalan gegn slakasta liðinu svo það gæti skipt sköpum í lokin.“

Fyrir leikinn talaðir þú um uppspil, gekk það upp?

„Ég held að Færeyingarnir hafi ætlað að loka miðsvæðinu og við náum þá stöðu, förum svo að senda fyrir inní markteig og sumt var flott en annað ekki.  Þegar við vorum svo komin í stöðu til að gefa fyrir voru Færeyingar yfirleitt komnir með átta leikmenn inní teiginn.  Kannski máttu vera meiri gæði í fyrirgjöfum, hlaupum og slíku en heilt yfir var þetta bara flott.“

Sat síðasti leikur liðsins, tapleikurinn gegn Austurríki á EM, eitthvað í liðinu?

„Ég held að Austurríkisleikurinn hafi örugglega setið eitthvað í okkur.  Við erum alltaf að spá í hlutina en það er búið núna.  Ég hef samt sagt að þetta mót er líka til að læra af og ég mun alltaf taka upp eitt og eitt atriði til að skoða og læra af.  Við erum með heilan banka af atriðum sem við getum nýtt okkur vel.“

Hvernig leggst leikurinn við Þjóðverja í þig?

„Hann  leggst vel í mig.  Hann verður skemmtilegt verkefni á stórum og flottum velli gegn frábæru liði.  Ég veit að við getum staðið þeim snúning en þurfum að eiga okkar allra besta dag og spila taktíkina mjög vel.  Við höfum þannig séð engu að tapa og öll pressan er á þeim, nú er kominn tími til að njóta þess.  Uppsetning okkar verður allt öðruvísi en í þessum leik.  Ég hef svo sem ekkert ákveðið hvaða leikkerfi við spilum, ætla bara að sjá til þess að við lokum fyrir styrkleika Þjóðverjanna og reynum að nýta það sem við höfum fram að færa.   Ég veit töluvert um þýska liðið, sá þá síðan gegn Dönum í Evrópukeppninni og fer til Tékklands í nótt til að horfa á það spila við Tékkana.  Ég er nokkuð sjóaður í að greina andstæðingana svo þetta verður allt í lagi.“ 

Má búast við sama liði?

„Ég gæti breytt leikmannahópnum eitthvað.  Ég tek markmann með til viðbótar enda tveir útileikir svo það fer einn útileikmaður út úr hópnum.  Svo kemur í ljós hvort ég geri einhverjar breytingar.  Allir leikmenn eru í fínu standi fyrir utan eitthvað smávægilegt sem er alltaf í svona hóp en ég vona að leikmenn fái fleiri mínútur með sínum liðum, þá meira sjálfstraust og verði klárir í slaginn í október í tveimur hrikalega mikilvægum leikjum.    Deildin hér heima verður þá búin hér heima en við höfum talað um hvernig við tæklum það, það eru nokkrir möguleikar í boði en ábyrgðin er hjá leikmönnum og ég treysti þeim fullkomlega til að hugsa vel um og gera það sem við höfum talað um að þeir eigi að gera.  Það er mjög mikilvægt því við erum að fara spila við eitt besta lið í heimi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert