Hiti í mönnum eins og á að vera

Srdjan Tufegdzic.
Srdjan Tufegdzic. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er gríðarlega ánægður með þennan sigur. Hann var kærkominn eftir þrjú jafntefli í röð og þetta var draumasigur. Að ná að halda hreinu og skora eitt mark eru draumasigrar,“ sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA eftir 1:0-sigur á Víkingi R. á útivelli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. 

Leikurinn var nokkuð grófur og fóru alls ellefu spjöld á loft og þar af eitt rautt. 

„Þetta eins leikur og ég bjóst við. Það var mikið undir og Víkingar vilja blanda sér í Evrópubaráttu en við höfum verið að falla neðar í töflunni og við vildum komast ofar. Þetta var eðlilegt, það var hiti í mönnum eins og á að vera.“

Tufegdzic viðurkennir að Víkingarnir hafi sótt nokkuð hart að hans mönnum í lokin og bætti við að sigurinn hefði verið fyrir stuðningsmenn KA, sem voru mjög háværir í stúkunni. 

„Víkingar fengu sín færi og það var komið stress hjá okkur í lokin því við vorum að reyna að halda út. Það gerist hjá liðum sem hafa ekki verið að vinna marga leiki upp á síðkastið. Við vildum að leikurinn kláraðist svo við gætum tekið þrjú stig með okkur heim. Mínir menn kláruðu þetta vel. Þessi sigur var fyrir stuðningsmennina okkar. Þeir hafa fylgt okkur í allt sumar og þessi sigur er gjöf frá mér og leikmönnum mínum til stuðningsmannanna.“

„Ég var mjög ósáttur við að falla svona aftarlega á völlinn og ég var ósáttur við nokkrar ákvarðanir hjá liði mínu þegar við gátum haldið boltanum mun betur. Við vorum manni fleiri og með mikið pláss. Ég var fótboltamaður sjálfur og ég þekki það vel að það er ekki auðvelt að spila ellefu á móti tíu.“

„Þetta verður barátta í hverjum einasta leik eins og í allt sumar. Deildin hefur spilast þannig að hver leikur skiptir máli og það eina sem ég er að horfa á er næsti leikur. Við eigum erfiðan leik gegn Víkingi Ó. um næstu helgi fyrir norðan og við ætlum að undirbúa okkur vel fyrir hann.“

Tufegdzic segir að rauða spjaldið sem nafni hans, Vladimir Tufegdzic, fékk hafi ekki endilega verið réttur dómur. 

„Hann var óheppinn, þeir fóru báðir í boltann og okkar maður fór aðeins á undan. Túfa var óheppinn með þessa tæklingu, stundum er þetta gult og stundum rautt. Dómarinn gerði pottþétt einhver mistök á báða bóga en ég verð að horfa á leikinn aftur til að sjá það betur, ég vil ekki tjá mig of mikið um dómgæslu,“ sagði Tufegdzic að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert