Skortir tæknilega færni

Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Frökkum.
Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Frökkum. AFP

„Mér finnst íslenska liðið vera nær betri liðunum en áður. Við höfum þurft að pakka í vörn gegn bestu liðunum en nú eigum við kafla þar sem við náum að pressa framar á vellinum sem er gaman að sjá. Liðið er í góðu líkamlegu standi, ákefðin og grimmdin í liðinu er mikil og það er okkar styrkur.“ Þetta segir knattspyrnuþjálfarinn Þorlákur Árnason um frammistöðu íslenska kvennalandsliðsins á Evrópumótinu í Hollandi.

Hann þjálfaði meðal annars marga leikmenn landsliðsins í U17 ára landsliðinu á sínum tíma og þekkir einnig margar þeirra frá tíma sínum hjá Stjörnunni. Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi tapað báðum leikjum sínum til þessa og muni hafna í neðsta sæti riðilsins telur Þorlákur að ekki sé ástæða til þess að ætla að Ísland sé að dragast aftur úr öðrum þjóðum þó að bilið virðist vera að minnka á milli liða í álfunni.

„Nei, mér finnst miklu meira jákvætt við þetta mót en neikvætt. Í grunninn erum við að gera rosalega vel. Við töpum tveimur leikjum naumlega og frammistaðan var þannig að við hefðum getað fengið stig í þeim báðum. En við erum alltaf að glíma við það að hafa ekki sama úrval og aðrar þjóðir. Okkur vantar tæknilega góðan miðjumann sem er með meira hugmyndaflug fram á við. Spurningin er hvort við séum að einblína of mikið á líkamlega þáttinn og eigum hreinlega ekki þessa leikmenn sem eru ofboðslega góðir tæknilega séð,“ segir Þorlákur og telur að einmitt þar liggi vandamálið hjá íslenska liðinu.

„Það má segja að við höfum ekki náð að nálgast liðin neitt hvað varðar færni á miklum hraða; að gera hluti sóknarlega undir pressu andstæðinga. Á móti betri liðunum erum við í gríðarlegum vandræðum að gera hluti með góðri færni fram á við. Þar stendur hnífurinn í kúnni og þar eru til dæmis Austurríki og Sviss betri en við. Við erum líkamlega sterkari en tæknileg færni er betri hjá þeim,“ segir Þorlákur.

Sjá allt viðtalið við Þorlák í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert