Mótherjar FH-inga byrja vel

Byrjunarlið FH í leiknum gegn Víkingi Götu í Þórshöfn í …
Byrjunarlið FH í leiknum gegn Víkingi Götu í Þórshöfn í síðustu viku. Ljósmynd/twitter-síða FH

Maribor, mótherji FH í þriðju umferð Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu annað kvöld, er með sex stig eftir tvo fyrstu leiki sína í slóvensku 1. deildinni, efstu deildinni þar í landi.

Liðið vann góðan útisigur á Triglav Kranj, 3:2, í annarri umferð deildarinnar á laugardaginn eftir að hafa lent tveimur mörkum undir í síðari hálfleiknum.

Nýjasti leikmaður liðsins, Jasmin Mesanovic frá Bosníu, minnkaði muninn í 2:1 en hann kom til liðsins í sumar frá Zrinjski Mostar, bosnísku meisturunum sem Maribor sló einmitt út í 2. umferðinni á dögunum.

Varamaðurinn Damjan Bohar jafnaði í 2:2 á 86. mínútu og brasilískur fyrirliði liðsins, Marcos Tavares, skoraði sigurmarkið á 88. mínútu. Þjálfari Maribor, Darko Milanic, sem stýrði m.a. enska liðinu Leeds í stuttan tíma haustið 2014, hvíldi nokkra lykilmenn í leiknum, örugglega með hliðsjón af viðureigninni við FH.

Ekki eins sterkir og áður

Íslendingurinn Uros Ívar Ivanovic er búsettur í Kranj í Slóveníu og sá leik liðanna á laugardaginn. Hann sagði við Morgunblaðið að lið Maribor virtist ekki vera eins sterkt og það hefði verið undanfarin ár og FH ætti að eiga alla möguleika á að veita því harða keppni, jafnvel slá það út.

Bestu menn liðsins, að sögn Uros Ívars, eru umræddur Tavares, sem er harðskeyttur og baráttuglaður sóknartengiliður sem hefur leikið með liðinu í heilan áratug, og miðjumaðurinn Valon Ahmedi frá Kósóvó sem er léttur, lipur og skotharður leikmaður.

Lykilmaður í varnarleik Maribor er Marko Suler, 34 ára miðvörður, sem lék alla leiki Slóveníu á HM í Suður-Afríku árið 2010 og spilaði 39 landsleiki. Markvörður liðsins er Jasmin Handanovic, 39 ára gamall, en fyrir þá sem finnst nafnið kunnuglegt þá er hann frændi Samirs Handanovic, markvarðar Inter Mílanó og slóvenska landsliðsins. Sjálfur á hann átta landsleiki fyrir Slóveníu.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert