Fleiri þurfa að sýna fórnfýsi og hugsa stórt

Glódís Perla Viggósdóttir í baráttu við Vanessa Burki í leik …
Glódís Perla Viggósdóttir í baráttu við Vanessa Burki í leik Íslands og Sviss. AFP

„Ef við tölum um staðreyndir og miðum við styrkleika félagsliðanna sem leikmenn spila með, þá erum við með eitt af þremur lélegustu liðunum á mótinu,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu, á fréttamannafundi í Hollandi í gær.

Eins og kunnugt er þá er Ísland úr leik á EM og endar neðst í sínum riðli, fyrir neðan Austurríki, Sviss og Frakkland. Lokaleikur Íslands á mótinu er gegn Austurríki í Rotterdam á morgun en hefur litla þýðingu. Freyr ræddi við fjölmiðla í gær ásamt aðstoðarmönnum sínum en gaf leikmönnum frí frá viðtölum. Hann var meðal annars spurður út í þá staðreynd að í íslenska landsliðshópnum eru 15 af 23 leikmönnum á mála hjá íslenskum áhugamannaliðum, sem er ansi ólíkt stöðunni hjá andstæðingum Íslands á EM:

„Allt byrjunarlið Austurríkis er til dæmis í þýsku 1. deildinni. Allt svissneska liðið er í þýsku deildinni, og ensku og frönsku. Franska liðið er svo allt í frönsku deildinni,“ sagði Freyr.

„Ég myndi vilja sjá fleiri leikmenn tilbúna að spila með bestu liðum Evrópu. Við eigum að hugsa stórt, sama þó að því fylgi stundum vonbrigði ef maður nær ekki markmiðunum. Leikmenn verða að þora að hugsa stórt og teygja sig eftir þessu. Það er nú bara ástæðan fyrir því að Sara Björk er komin í Wolfsburg. Hún lét sig dreyma um þetta þegar hún var 12 ára eða eitthvað. Hún ætlaði sér bara að fara þangað. Ég vona að ungir leikmenn sem hafa séð þessar valkyrjur sem við eigum, slást úti á vellinum, noti þær sem kraft til að hugsa stórt og teygja sig lengra. Við eigum fullt af flottum stelpum heima, sem geta tekið skrefið, en það kostar rosalega vinnu. Ég vona að okkar ungu, efnilegu leikmenn geri það,“ sagði Freyr. En af hverju eru atvinnumenn Íslands ekki fleiri?

„Þetta er blanda af mörgu. Í fyrsta lagi þarftu að fórna ákveðnum hlutum til að komast út. Fyrstu skrefin eru þung fjárhagslega. Maður fær ekki góðan samning í upphafi. Það þarf að skrimta fyrst áður en hægt er að taka skrefið upp. Á Íslandi hafa leikmenn það hins vegar ágætt. Þeir geta búið hjá foreldrum sínum, eru í aukavinnu með, og spila við fínar aðstæður. Klúbbarnir á Íslandi eru með fína þjálfara og æfingaaðstöðu, það er ekkert út á það að setja, en ef við horfum á keppnisaðstæður þá er ekki hægt að bera þetta saman,“ sagði Freyr.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert