Fótboltinn á Íslandi öflugur og líkamlegur

Ivan Bubalo í leiknum í kvöld.
Ivan Bubalo í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Pedro Hipólito, þjálfari Fram, var ánægður eftir að liðið vann loks sigur undir hans stjórn, 3:0, gegn Leikni Reykjavík í 14. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í Laugardalnum í kvöld. Fram hafði tapaði fyrstu fjórum leikjum sínum undir stjórn Portúgalans en í kvöld komu fyrstu stigin í hús.

„Ég hef trú á liðinu, alltaf. Leikmennirnir leggja hart að sér, hafa sterkan karkater og trúa á verkefnið. Í síðustu tveimur leikjum verðskulduðum við sigur en vorum óheppnir og gerum dýr mistök svo þetta er kærkomið.“

Þrátt fyrir taphrinu liðsins hafði Hipólito aldrei áhyggjur af sjálfstrausti leikmanna sinna en honum hefur þótt vinnusemi liðsins tilkomumikil síðan hann kom til Íslands.

„Þegar þú tapar of mörgum leikjum getur sjálfstraustið minnkað en ég vona að við byggjum ofan á þetta. Ég hafði aldrei áhyggjur, við leggjum hart að okkur og gefumst aldrei upp.“

Ivan Bubalo virðist hafa fundið skotskóna sína aftur en hann hefur skorað í síðustu tveimur leikjum Fram. Helgi Guðjónsson og Axel Freyr Harðarson skoruðu einnig í kvöld en þeir eru báðir ungir að aldri.

„Það sem er mikilvægt fyrir mig er að allir skori. Í dag skoruðu tveir ungir strákar fyrir okkur, það er frábært fyrir okkur og landsliðið ef augu fólks eru á þeim. Það sem skiptir máli er sigurinn og að við leggjum hart að okkur og höldum áfram að þroskast sem lið.“

Helgi Guðjónsson átti sprettinn sem leiddi að vítaspyrnu Fram og jafnframt fyrsta marki kvöldsins ásamt því að skora sjálfur og hrósaði Hipólito honum í hástert.

„Helgi er frábær leikmaður, hann þarf að læra margt varðandi staðsetningu og skipulag liðsins en hann er með frábæran vinstri fót og mikið þor. Í honum og Axel [Frey Harðarsyni] eru tveir frábærir leikmenn fyrir framtíð Íslands.“

Hvernig líkar Hipólito Íslandsdvölin hingað til?

„Mér líkar fótboltinn hér, hann er mjög öflugur og líkamlegur og viðhorf leikmanna hér er mjög gott. Leikirnir eru erfiðir og mér líkar það vel.“

Simon Smidt gekk til liðs við Grindavík á dögunum en Portúgalinn sýndi þeirri ákvörðun skilning.

„Hann fékk betra boð. Þetta er gott fyrir framtíð hans og ég óska honum velfarnaðar í þessu verkefni, við erum með gott lið.“ Koma einhverjir leikmenn til liðs við Fram áður en félagaskiptaglugginn lokar? „Ég veit það ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert