„Vil biðja fólk afsökunar á þessari frammistöðu“

Stjörnumenn fagna einu marka sinna í kvöld.
Stjörnumenn fagna einu marka sinna í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er fyrst og síðast óánægður með andleysi minna manna í dag. Við vorum huglausir, andlausir og agalausir. Öll þau gildi sem við byggjum á, þau voru ekki til staðar í dag. Þegar það fór að blása á móti, þá hlupum við burtu frá öllu því sem við vinnum eftir. Og það er ég gríðarlega ósáttur við,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, eftir 5:0 tap gegn Stjörnunni í Pepsi-deild karla í kvöld.

Stjarnan komst yfir með umdeildu marki strax eftir 47 sekúndur þar sem þeir Baldur Sigurðsson og Kristijan Jajalo skullu saman. Aðspurður hvort honum fyndist það brot sagði Óli Stefán:

„Þetta var hreint og klárt brot, Jajalo er með stórt takkafar í lærinu eftir Baldur. En í stóra samhenginu þá spái ég ekki í þetta. Það er aukaatriði.“

Aðspurður hvað Grindavík hafi lagt upp með sagði Óli:

„Við lögðum upp með að „bounca“ til baka og að halda í það sem hefur komið okkur í þá stöðu sem við erum í í dag. Við lögðum mikla vinnu í það í vikunni. Um leið og við fáum á okkur annað markið þá hrundi þetta. Það sem ég er svo ósáttur við er hvað við verðum agalausir. Við hlupum út úr öllu því sem við vinnum eftir og fáum rassskellingu. Ég vil biðja fólk afsökunar á þessari frammistöðu okkar hérna í dag.“

Liðið fékk á sig mörk eftir föst leikatriði í dag.

„Ég hef lagt upp með það að við viljum fara með gulan haus í alla bolta í föstum leikatriðum. En í síðustu leikjum þá höfðum við ekki gert það, og það er eitt af því sem þarf að laga.“

Grindavík hefur nú tapað tveimur leikjum í röð nokkuð stórt. Er það áhyggjuefni?

„Að sjálfsögðu er þetta áhyggjuefni. Mér líkar mjög illa þegar liðið mitt fer út úr því sem við vinnum eftir. Það hefur loðað við okkur í gegnum tíðina að þegar við ætlum að spila okkur stóra, þá fáum við stærstu skellina. Það er að eiga sér stað hérna. Við verðum að átta okkur á því hverjir við erum og hvaðan við komum. Í dag erum við langt frá því, það er alveg klárt.“

Óli Stefán Flóventsson.
Óli Stefán Flóventsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert