Til í nánast allt eftir sigurleiki

Birnir Snær Ingason og Gunnar Heiðar Þorvaldsson í leiknum í …
Birnir Snær Ingason og Gunnar Heiðar Þorvaldsson í leiknum í Grafarvogi. mbl.is/Árni Sæberg

„Við fengum langt frí fyrir síðustu tvo leikina okkar í deildinni og við höfum greinilega gert eitthvað rétt á þeim tíma. Það er frábært að hafa náð að tengja saman tvo sigurleiki og fikra okkur aðeins frá fallsvæðinu,“ sagði Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis, í samtali við mbl.is, eftir 2:1-sigur liðsins gegn ÍBV í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. 

„Þetta var skrýtinn leikur og þetta var einn erfiðasti leikur sumarsins hingað til. Þeir sóttu hart að okkur undir lok leiksins. Við vorum komnir með alla leikmenn liðsins bakvið boltann og ég var gargandi á leikmenn að dekka á lokaandartökum leiksins. Boltinn sogaðist aftur og aftur til þeirra, en sem betur fer náðum við að koma í veg fyrir að þeir skoruðu,“ sagði Ágúst Þór enn fremur um þróun leiksins.

Fjölnir er nú í sjöunda sæti deildarinnar eftir að hafa náð í sex stig í síðustu tveimur leikjum liðsins og liðið er komið fjórum stigum á undan ÍBV sem er í næstneðsta sæti deildarinnar. Deildin er afar jöfn og fá stig sem skilja liðin að á botni og toppi deildarinnar. 

„Það er nóg af leikjum framundan og við erum ekkert sloppnir úr fallbaráttunni þrátt fyrir að við höfum fjarlægst botnsvæðið með þessum sigri. Nú reynir á leikmannahópinn og við teljum okkur vera með nógu stóran hóp til þess að takast á við það álag sem framundan er. Við erum hins vegar alltaf með augun opin fyrir því að styrkja hópinn, en við munum meta stöðuna í næstu viku,“ sagði Ágúst Þór um framhaldið.

Ágúst Þór mætti rennvotur til móts við fjölmiðla, en honum var slétt sama um það og sagðist vera til í alls konar fíflagang með leikmönnum sínum eftir sigurleiki.

„Strákarnir hafa ofboðslega gaman af því að bleyta karlinn þegar við vinnum. Það hefur í raun skapast sú hefð að væta vel í mér eftir sigurleiki. Ég hef lagt það í vana minn að skipta um föt áður en ég mæti í viðtöl, en ég sleppti því í dag. Ég er tilkippilegur í nánast allt eftir að hafa stýrt liðinu til sigurs,“ sagði Ágúst Þór um ástæðu þess að hann mætti í blautum fötum í fjölmiðlaherbergið. 

Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis.
Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert