Komum Víkingunum á óvart

Kennie Chopart og Davíð Örn Atlason í leiknum í kvöld.
Kennie Chopart og Davíð Örn Atlason í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, var mjög sáttur við sitt lið í 3:0 sigri á Víkingum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Hann segir sitt lið hafa komið Víkingunum á óvart í kvöld. 

„Þetta var verðskuldaður sigur, liðsheildin frá byrjun var algjörlega frábær. Við komum Víkingunum aðeins á óvart og það gekk upp að hluta til. Einbeitingin og vinnuframlag liðsins var til fyrirmyndar og það er gott að geta byrjað deildina almennilega,“ sagði Willum sem segir þetta besta leik KR í deildinni í ár. 

„Við höfum náð mjög góðum leikjum í útlöndum án þess að það hafi verið talað mikið um það og það hefur verið vont að sitja eftir í deildinni. Við áttum frábæran leik úti í Finnlandi á móti SJK, það var flottur 2:0 sigur og uppleggið í kvöld var ekki ósvipað. Við ákváðum að taka það með okkur í leikinn núna. Þetta var heilsteyptasti leikurinn okkar á íslenskri grundu í sumar.“

Hann segir sigurinn ekki hafa létt á pressu á sér sjálfum. 

„Ekki mér heldur öllum KR-ingum. Þessi deild er þannig að við þurfum að einbeita okkur að einum leik í einu og öll liðin eru sterk. Við þurfum að ná því besta fram í hverjum leik ef við ætlum að fá eitthvað út úr þeim.“

Tobias Thomsen og André Bjerregaard voru mjög sterkir í framlínu KR í leiknum. Tobias skoraði tvö mörk og André eitt. Sá síðarnefndi var að spila sinn fyrsta leik með KR í kvöld. 

„Víkingarnir áttu erfitt með uppspilið því framherjarnir okkar pressuðu vel á þá. Við breyttum aðeins skipulaginu í þeim efnum og það gekk mjög vel. Það létti á miðjumönnunum og liðið tikkaði sem ein heild og þá endar þetta oftast vel. Við eigum flotta framherja en þeir eru kannski ekki með þá eiginleika sem André hefur upp á að bjóða.“

Erlingur Agnarsson fékk mjög gott færi snemma leiks og hefði hann getað komið Víkingum í 1:0. Beitir Ólafsson varði hins vegar mjög vel frá honum. 

„Víkingarnir komu öflugir inn í seinni hálfleikinn og hefði þeim tekist að ná fram marki þá, hefði þetta getað orðið öðruvísi. Þetta var lykilvarsla hjá Beiti í fyrri hálfleik. Þeir fengu besta færið sitt í byrjun leiks og hefði getað komist í 1:0, það hefði getað breytt miklu,“ sagði Willum að lokum. 

Willum Þór Þórsson og Arnar Gunnlaugsson.
Willum Þór Þórsson og Arnar Gunnlaugsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert