„Ég er bara reiður“

Srdjan Tufegdzic, Túfa, á hliðarlínunni gegn Blikum í dag.
Srdjan Tufegdzic, Túfa, á hliðarlínunni gegn Blikum í dag. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Ég er bara reiður. Reiður yfir því að við erum enn og aftur að fá á okkur mörk snemma í leikjum. Eftir tvær mínútur í fyrri hálfleik og tvær mínútur í seinni hálfleik,“ sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, við mbl.is eftir 4:2 tap gegn Breiðabliki í 12. umferð Pepsi-deildar karla í dag.

„Þetta er að gerast í þriðja skiptið í heimaleikjunum okkar, bæði á móti ÍBV, KR og í dag. Það sem er mest svekkjandi er byrjunin á seinni hálfleik. Við vorum að spila vel í lok fyrri hálfleik en það er ekki í boði að hitt liðið skori alltaf um leið og leikmenn eru komnir út á völl. Það gerir okkur erfitt fyrir.“

Liðið hefur fengið á sig 7 mörk í seinustu tveimur leikjum, veldur þetta Tufa áhyggjum?

„Já, þetta er mikið áhyggjuefni. Það eina sem við getum gert er að laga þessa hluti. Ég hef trú á að mínir menn geti snúið þessu við.“

Stendur til að styrkja sig í glugganum?

„Já, við erum búnir að vera með miðvörð á æfingum undanfarna viku. Það bendir allt til þess að við klárum það mál en ég er ekki maður sem vill horfa bara á gluggann. Við verðum bara að breyta okkur sjálfum, verðum að stíga upp og gera hlutina betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert