Hinir mega bara kvarta

Jósef Kristinn Jósefsson.
Jósef Kristinn Jósefsson. mbl.is/Golli

Jósef Kristinn Jósefsson, vinstri bakvörður Stjörnunnar, vann það fágæta afrek í sigrinum á Fjölni í fjórðu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu að leggja upp öll þrjú mörk liðsins í 3:1 útisigrinum á Fjölni.

Jósef sagði við Morgunblaðið að einhvern veginn hefði þetta allt fallið vel fyrir sig í leiknum. „Við áttum góðar sóknir og það var auðvelt að spila boltanum áfram á næsta mann. Ég hef mikið frelsi til að taka þátt í sóknarleiknum og fara upp vinstri kantinn. Þar næ ég vel saman við Hilmar Árna Halldórsson sem er hrikalega góður í fótbolta, rétt eins og við erum með í öllum stöðum,“ sagði Jósef.

Hann er uppalinn Grindvíkingur og hefur ávallt spilað á heimaslóðum ef undan er skilið hálft ár í Búlgaríu árið 2011. Jósef hefur því spilað með Grindavík í 1. deild síðustu fjögur árin, en liðið féll úr úrvalsdeildinni 2012. Hann tók þátt í að koma því aftur upp á síðasta ári en segir að það hafi ekki verið erfitt að skipta um félag.

„Nei, þetta var eiginlega einföld ákvörðun. Mér fannst vera komið gott, það var kominn smá leiði í mig að vera alltaf í sama umhverfinu og ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun hjá mér að breyta til. Kannski átti ég að fara miklu fyrr, ég hef oft fengið að heyra það, en mér fannst aldrei vera rétti tíminn til þess. Ég var þrjóskur og hafði engan áhuga á að vera gæinn sem lætur sig hverfa þegar illa gengur. Það gekk illa að koma Grindavík upp úr 1. deildinni, það tók fjögur ár, og mér fannst ekki rétt að fara á meðan liðið væri fast þar. Ég veit vel að fótboltamenn hugsa ekki allir á þennan hátt í dag en mér fannst þetta og er sáttur við hvernig málin þróuðust,“ sagði Jósef, sem er afar ánægður í Stjörnunni.

Sjá allt viðtalið við Jósef og einnig lið 5. umferðarinnar í Pepsi-deildinni ásamt stöðunni í M-gjöfinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert