Sjöundi sigur Þórs/KA í röð kom í stórleiknum

Agla María Albertsdóttir, Stjörnunni, og Hulda Björg Hannesdóttir, Þór/KA, eigast …
Agla María Albertsdóttir, Stjörnunni, og Hulda Björg Hannesdóttir, Þór/KA, eigast við í leiknum í Garðabæ í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þór/KA heldur áfram magnaðri sigurgöngu sinni í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, en liðið vann 3:1-sigur á Stjörnunni í stórleik 7. umferðar í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Þórs/KA í Garðabænum í fimm ár og er liðið enn með fullt hús stiga á toppnum.

Stjarnan hefði vart getað byrjað leikinn betur, því strax á þriðju mínútu leiksins skoraði Agla María Albertsdóttir með skoti utarlega í teignum sem fór í stöngina og þaðan í netið. Staðan 1:0 fyrir Stjörnuna.

Þór/KA hresstist eftir markið áður en leikurinn jafnaðist á ný. Bæði lið fengu sín færi og það var eftir eitt slíkt hjá Stjörnunni sem Þór/KA jafnaði í kjölfarið. Anna Rakel Pétursdóttir sendi þá boltann á Stephany Mayor sem náði að snúa í teignum og skjóta á markið. Staðan 1:1 og skammt eftir af fyrri hálfleik.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks komst Þór/KA svo yfir, en þar var að verki Natalia Gómez. Hún var þá með boltann utan teigs, lét vaða og boltinn sveif yfir Gemmu Fay í marki Stjörnunnar og í netið. Staðan 2:1 fyrir Þór/KA í hálfleik.

Það dró svo aftur til tíðinda á 61. mínútu. Natalia Gómez átti þá glæsileg aukaspyrnu í þverslána, boltinn datt svo niður í teiginn þar sem Hulda Ósk Jónsdóttir var fyrst að átta sig og kom boltanum í netið. Staðan 3:1 fyrir Þór/KA og tæpur hálftími eftir.

Eftirleikurinn var nokkuð þægilegur fyrir Þór/KA þó að bæði lið hefðu getað bætt við mörkum. Niðurstaðan 3:1-sigur Þórs/KA, sem er því enn með fullt hús stiga á toppnum eftir sjö umferðir, alls 21 stig. Stjarnan er í öðru sætinu með 16 stig og tapaði hér sínum fyrsta leik.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Viðtöl koma inn á vefinn síðar í kvöld.

Stjarnan 1:3 Þór/KA opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert