Samtaka jafnaldrar með 300 leiki

Birkir Már Sævarsson og Davíð Þór Viðarsson eru báðir komnir …
Birkir Már Sævarsson og Davíð Þór Viðarsson eru báðir komnir með 300 deildarleiki á ferlinum. Morgunblaðið/Skapti/Eva Björk

Knattspyrnumennirnir Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, og Birkir Már Sævarsson, landsliðsmaður hjá Hammarby í Svíþjóð, náðu báðir þeim áfanga í gær að spila sinn 300. deildarleik á ferlinum.

Úrslitin hjá þeim báðum voru nákvæmlega þau sömu. Davíð lék með FH sem gerði 2:2 jafntefli við KR í Vesturbænum og Birkir lék með Hammarby sem gerði 2:2 jafntefli við Jönköping í sænsku úrvalsdeildinni.

Davíð og Birkir eru jafnaldrar, báðir fæddir árið 1984, og hafa báðir átt langan og farsælan feril. Davíð hefur verið aðeins lengur á ferðinni en þetta er hans átjánda ár í meistaraflokki á meðan Birkir er á sínu fimmtánda ári.

Davíð lék fyrst 16 ára gamall með FH árið 2000 en þá var Hafnarfjarðarliðið á leið upp úr 1. deildinni. Hann fór til Lillestrøm í Noregi og lék þar 2002 til 2004 en kom aftur til FH og spilaði þar samfleytt til 2009 og hafði þá unnið fimm Íslandsmeistaratitla og einn bikarmeistaratitil með liðinu.

Davíð hafði aðeins komið við sögu með Lokeren í Belgíu árið 2006 en á árunum 2010-13 lék hann með Öster í Svíþjóð og Vejle-Kolding í Danmörku. Hann sneri aftur til FH 2013 og hefur haldið áfram að safna meistaratitlum í Hafnarfirði.

Hér á landi hefur Davíð spilað 188 deildaleiki með FH, alla nema einn í úrvalsdeild. Hann lék 13 leiki með Lillestrøm, 2 með Lokeren, 74 með Öster og 23 með Vejle-Kolding.

Birkir er uppalinn Valsmaður og kom fyrst inn í meistaraflokk á Hlíðarenda árið 2003. Hann lék með Val til 2008 og varð bæði Íslands- og bikarmeistari áður en hann gerðist atvinnumaður með Brann í Noregi árið 2008. Þar lék Birkir samfellt í hálft sjöunda ár í norsku úrvalsdeildinni en flutti sig þá um set yfir til Svíþjóðar og er þar á sínu þriðja ári með Stokkhólmsliðinu Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni.

Birkir lék 67 deildarleiki með Val, 56 þeirra í úrvalsdeild og 11 í 1. deild. Hann lék 168 deildarleiki með Brann og hefur nú spilað 65 deildarleiki með Hammarby.

Birkir hefur um árabil verið fastamaður í íslenska landsliðinu og á 71 landsleik að baki. Davíð kom aftur inn í landsliðið eftir níu ára hlé snemma á þessu ári og spilaði sinn níunda landsleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert