Margrét Lára ekki alvarlega meidd

Margrét Lára fer meidd af velli í kvöld.
Margrét Lára fer meidd af velli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfur Blandon, þjálfari Vals, var vissulega kátur eftir öruggan 4:1 sigur á Haukum í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í dag. Sigurinn var sá þriðji í röð og var Úlfur sérstaklega ánægður með fyrri hálfleikinn.

„Við vorum virkilega góðar í fyrri hálfleik og við sköpuðum okkur hættuleg færi. Heilt yfir var þetta fínn leikur þó að við hefðum getað gert betur í seinni hálfleik. Við gerðum ekki alveg það sem við ræddum um í hálfleik og við gefum eitt mark sem ég hefði verið til í að sleppa.“

Margrét Lára Viðarsdóttir þurfti að fara af velli vegna meiðsla en Úlfur segir meiðslin ekki alvarleg.

„Ég held það sé í lagi með hana, hún fékk smá högg á hnéð og við vitum meira síðar, en ég held það sé í fínu lagi með hana.“

Valur byrjaði mótið frekar illa, en hefur nú unnið þrjá leiki í röð. Úlfur segir andrúmsloftið í búningsklefanum þó ekki hafa breyst.

„Það hefur ekkert breyst, það hefur verið létt og gott síðan í byrjun móts. Við förum inn í mótið brosandi og við höfum verið brosandi í gegnum allt mótið og við erum enn brosandi, svo ég er sáttur. Leikmenn hafa tekið þessu með jafnaðargeði og við höldum áfram,“ sagði Úlfur Blandon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert