Harpa sneri aftur – „Alltaf geggjað gaman“

Harpa Þorsteinsdóttir.
Harpa Þorsteinsdóttir. mbl.is/Golli

„Þetta er alltaf geggjað gaman og ég er mjög ánægð með að vera komin aftur í skóna og farin að sparka,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir, framherji Stjörnunnar, við mbl.is eftir að hún sneri til baka á völlinn í kvöld í fyrsta sinn síðan á síðasta tímabili.

Harpa ól sitt annað barn í lok febrúar og hefur ekkert verið með. Hún kom þó ekki í veg fyrir 3:1-tap Stjörnunnar gegn Þór/KA sem var fyrsta tap meistaraliðsins í sumar.

„Ég hefði alveg viljað koma inn í annarri stöðu. Það var skrítið að fylgjast með fyrri hálfleiknum hjá okkur þar sem við vorum ólíkar sjálfum okkur. Maður vissi alveg að það kæmi að þessu [að tapa], þessi deild býður upp á margt og við vissum að við myndum tapa stigum. En við vildum ekki tapa stigum á móti þessu liði, það er alveg klárt,“ sagði Harpa.

Hún kom af bekknum þegar tæpar tíu mínútur voru eftir og var vel fagnað af áhorfendum, en hvernig er leikformið?

„Það er erfitt að segja, ég hef verið að hlaupa og svona en það er erfitt að koma inn þar sem aðrar eru í geggjuðu formi. Ég hef þurft að passa mig svolítið að koma inn í þetta á réttum tíma, því það hefði verið hættulegt að stökkva af stað þegar mér fannst ég vera tilbúin. Mér finnst ég hafa verið ótrúlega skynsöm og eiginlega skynsamari en ég hefði trúað sjálfri mér til,“ sagði Harpa.

Íslenska kvennalandsliðið tekur þátt í lokakeppni Evrópumótsins í júlí og Harpa hlýtur að vera með hugann við það?

„Auðvitað er maður alltaf með þetta á bak við eyrað og sem betur fer er þetta sama markmiðið, að spila vel bæði fyrir Stjörnuna og landsliðið. Ég hugsa bara um að bæta minn leik hér og síðan kemur kannski eitthvað í ljós. Aðallega er ég ánægð með að vera komin inn á völlinn,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert