Virkaði vel að skipta um leikkerfi

Bergsveinn Ólafsson, leikmaður FH, kemur boltanum í burtu í leik …
Bergsveinn Ólafsson, leikmaður FH, kemur boltanum í burtu í leik liðsins gegn KR í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég held að þetta hafi verið sanngjörn úrslit svona þegar upp er staðið. Þetta var hörkuleikur tveggja góðra liða og jafntefli sanngjörn niðurstaða,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, í samtali við mbl.is, eftir 2:2-jafntefli liðsins gegn KR í fimmtu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Alvogen-vellinum í kvöld.

Heimir ákvað að breyta úr leikkerfinu 3:4:3 sem liðið hefur spilað mestan hluta leikja sinna í sumar yfir í hið gamalgróna leikkerfi 4:3:3 sem reynst hefur vel hjá FH undir stjórn Heimis.

„Mér fannst það koma ágætlega út að skipta um leikkerfi. Við vildum reyna að koma þeim aðeins á óvart með þessu útspili okkar. Við hefðum mátt halda boltanum aðeins betur og vera aðeins klókari í ákveðnum stöðum sem við vorum að skapa okkur,“ sagði Heimir um spilamennsku FH í leiknum.

FH hefur sex stig eftir fimm umferðir og er sjö stigum á eftir Stjörnunni sem trónir á toppi deildarinnar með 13 stig.

„Mér fannst það ekki sýna sig í spilamennsku okkar að það sé komin einhver örvænting í leik okkar þrátt fyrir slæm úrslit í síðustu leikjum liðsins. Það var góð liðsheild í liðinu í dag að mínu mati og leikmenn liðsins voru tilbúnir til þess að berjast fyrir hver annan. Við byggjum á því í næstu leikjum liðsins,“ sagði Heimir um stöðu liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert